Svíþjóð Sumarbústaðalífið er ljúft og alltaf hægt að stóla á góð sumur.
Svíþjóð Sumarbústaðalífið er ljúft og alltaf hægt að stóla á góð sumur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmunda Lára Guðmundsdóttir, sem er alltaf kölluð Lára, fæddist 19. júní 1950 í Hafnarfirði, ein þriggja systkina. „Það var gott að alast upp í Hafnarfirði og ég átti góða æsku,“ segir hún

Guðmunda Lára Guðmundsdóttir, sem er alltaf kölluð Lára, fæddist 19. júní 1950 í Hafnarfirði, ein þriggja systkina. „Það var gott að alast upp í Hafnarfirði og ég átti góða æsku,“ segir hún. „Við fórum alltaf í sumarfríum til Breiðuvíkur á Snæfellsnesi til afa og ömmu. Mamma er ein af níu systkinum og fjölskyldur þeirra voru meira og minna í sveitinni á sumrin og það var mikið líf og fjör með frændsystkinunum,“ segir hún og bætir við að gamla íbúðarhúsið hafi verið gert upp og gert félag um jörðina og ættingjarnir eru með sumarbústaðalóðir á landinu. „Við höfum gaman af því að hittast öll þar.“

Lára fór í landspróf í Flensborg og síðan í Kennaraskólann. „Ég var að spá í að fara með vinkonu minni í Verslunarskólann, en skólastjórinn í Flensborg, Ólafur Þ. Kristjánsson, sagði við mig að Verslunarskólinn passaði ekkert fyrir konur. Þær þyrftu ekkert að læra viðskiptafræði og betra væri fyrir mig að fara í Kennaraskólann,“ segir hún og hlær að minningunni.

„Það kom samt ágætlega út því ég hafði alltaf haft gaman af börnum og passaði mikið þegar ég var stelpa. Svo þetta varð allt til góðs.“ Lára lauk kennaraprófi 1970 og stúdentsprófi 1971 og fór að kenna við grunnskólann í Sandgerði. „Það var mjög mikil upplifun fyrir ungan kennara að byrja að kenna í Sandgerði. Þarna voru allir unglingar að vinna með skólanum í fiski og byrjuðu svo fljótt að vinna að þau máttu varla við að ljúka náminu, og flest luku bara 8. bekk. Það var öll áherslan á vinnumarkaðinn og að bjarga sjávarafla, eins og oft er í sjávarplássunum. Þetta kom mér spánskt fyrir sjónir, þar sem ég hafði verið á framfæri foreldra minna meðan ég var í náminu til 21 árs aldurs. En í Sandgerði kynntist ég góðu fólki sem er enn vinir mínir í dag.“

Lára kynntist eiginmanni sínum, Guðbjarti, á balli í Klúbbnum 1972 og giftu þau sig 1973. Hann var frá Vestmannaeyjum, og þau ákváðu að hefja búskap á Suðurnesjum. „Við keyptum okkur fyrst íbúð í Sandgerði og bjuggum þar meðan við vorum að byggja okkur hús í Innri-Njarðvík.“ Guðbjartur stofnaði fyrirtækið GD Trésmíði og Lára sá um bókhaldið meðfram kennslunni.

Árið 1979 fór hún að kenna í Njarðvíkurskóla og varð þar síðar aðstoðarskólastjóri og síðan skólastjóri, en þá hafði hún lokið við diplómanám í stjórnun við HÍ. „Fyrstu árin sem grunnskólinn á Ásbrú, Háaleitisskóli, var rekinn var hann undir Njarðvíkurskóla og ég því skólastjóri þar í þrjú ár.“ Lára hætti í skólanum 2011 og fór þá í nám í fötlunarfræðum og vann síðan hjá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar þar til hún fór á eftirlaun.

Lára segist hafa notið þess að starfa í skólasamfélaginu og hún gaf út með samkennurum í Njarðvíkurskóla verkefnið Markviss lestrarkennsla – Heildstætt móðurmál sem var kynnt úti um allt land. Hún segir að þrátt fyrir neikvæða umræðu um lestrarkennslu telji hún að skólastarf sé á mikilli uppleið. „Það hefur verið mikið álag á Suðurnesjum vegna fjölda innflytjenda, en ég heyri að það er mikið þróunarstarf í gangi og mikil samvinna á milli skólanna. Ég held að þetta horfi allt upp á við og það sé kraftur í fólki.“

Lára hefur verið virk í félagsmálum og var fyrsti formaður Delta, Kappa, Gamma, Þeta-deild, Félags kvenna í fræðslustörfum á Suðurnesjum og er enn í samtökunum. Hún var einnig í Systrafélagi Njarðvíkurkirkju á sínum tíma. „Það var eiginlega eins og kvenfélag hverfisins og ég var formaður þess um tíma.“

Lára segir að hún hafi mikinn áhuga á handavinnu, lestri, ferðalögum og þá ekki síst sumarhúsi þeirra hjóna í Boda Glasbruk í Svíþjóð sem sé algjör paradís. „Frænka mannsins míns átti hús þarna og við heimsóttum hana og féllum alveg fyrir staðnum og við keyptum okkur sumarhús. Sumarhúsið hefur vakið mikla lukku hjá fjölskyldunni enda algjör sumarparadís.“

Það eru þó barnabörnin sem eiga hug hennar og hjarta, enda ekkert jafn gefandi og ömmuhlutverkið.

Hjónin eru núna í Veróna á Ítalíu á slóðum Rómeós og Júlíu í tilefni afmælisins. „Við verðum í Veróna og líka í Mílanó í fimm daga,“ segir hún og bætir við að þau hjónin haldi síðan upp á sameiginlegt afmæli þegar bóndinn nær henni í haust. „En ég hef alltaf verið stolt af því að eiga afmæli á kvenréttindadaginn.“

Fjölskylda

Eiginmaður Láru er Guðbjartur Daníelsson húsasmiður, f. 18.11. 1950, og þau búa í Ytri-Njarðvík í Reykjanesbæ. Foreldrar Guðbjarts eru Daníel Guðni Guðmundsson bifreiðarstjóri, f. 14.11. 1925, d. 19.7. 1996, og Marta Hjartardóttir húsfreyja, f. 30.6. 1926, d. 17.1. 2021.

Börn Láru og Guðbjarts eru: 1) Daníel Fannar, f. 15.12. 1973, yfirmaður vísindarannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, giftur Hilmu Hólm hjartalækni. þau eiga sex börn og eitt barnabarn og búa í Rvík.

2) Ásgeir Snær, f. 24.5. 1977, deildarstjóri tölvu- og tæknideildar hjá Tækniskólanum, giftur Ólöfu Magneu Sverrisdóttur leikskólastjóra. Þau eiga þrjú börn og búa í Reykjanesbæ.

3) Hjörtur Magnús, f. 6.6. 1983, kerfisstjóri við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, kvæntur Vilborgu Pétursdóttur, teymisstjóra barna- og fjölskylduteymis hjá Reykjanesbæ. Þau eiga þrjú börn og búa í Reykjanesbæ.

Systkini Láru eru: 1) Jón, húsasmiður í Hafnarfirði, f. 30.10. 1948; og 2) Jenný Unnur, matráður á leikskóla, Hafnarfirði, f. 16.2. 1952.

Foreldrar Láru eru hjónin Guðmundur Oddgeir Jónsson, f. 19.3. 1922, d. 19.3. 1922, múrari og sjómaður, og Þorbjörg Georgsdóttir, f. 17.3. 1928, d. 16.6. 2010, starfskona á St. Jósefspítala í Hafnarfirði.