Ásgeir Hauksson fæddist 22. ágúst 1971 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur í nánd við heimili sitt 9. júní 2025.

Foreldrar hans eru Þórður Haukur Ásgeirsson, f. 6. desember 1953, d. 10. janúar 2021, og Þorbjörg Kristín Jónsdóttir, f. 17. október 1952. Systir Ásgeirs er Þórdís Hauksdóttir, f. 15. júlí 1978.

Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs er Þorbjörg Sveinsdóttir, f. 4. ágúst 1972. Foreldrar hennar eru Sveinn Þórir Jónsson, f. 24. nóvember 1942, og Sigríður Stefánsdóttir, f. 12. mars 1944. Börn Ásgeirs og Þorbjargar eru Alexander Freyr Tamimi, f. 26. mars 1990, maki Guðný Halldórsdóttir, f. 25. október 1991, Stefán Haukur Ásgeirsson, f. 24. febrúar 1999, maki Tinna Tongbai Steingrímsdóttir, f. 23. júní 2001, Torfi Sveinn Ásgeirsson, f. 19. júlí 2004.

Ásgeir ólst upp á Blönduósi og bjó einnig á Akureyri, Sauðárkróki og í Danmörku á yngri árum. Hann flutti til Reykjavíkur og lauk stúdentsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1992 en meðfram framhaldsskólanámi starfaði hann við viðhald ­dreifikerfis RARIK og undi sér vel í þeirri útivinnu. Að stúdentsprófi loknu hóf hann nám í ­tölvunarfræði við Háskóla Íslands og kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Þorbjörgu, á háskólaárunum. Árið 1996 hóf hann störf hjá flugfjar­skiptastöðinni í Gufunesi, sem nú tilheyrir Isavia. Í Gufunesi og síðar í Flugstjórnar­miðstöðinni við Reykja­víkurflugvöll vann hann við þróun og rekstur á tölvu­kerfum tengdum alþjóðaflugþjónustunni, síðast sem rekstrarstjóri ATM-kerfa. Var þekking hans og kunnátta mikils metin á vinnustaðnum og aðstoðaði hann meðal annars við gerð nýrrar vefsíðu Isavia ANS.

Ásgeir hélt góðri tengingu við sínar æskuslóðir á Blönduósi, þar sem foreldrar hans og systir bjuggu áfram eftir að hann flutti til Reykjavíkur. Hann var einn af stofnendum Húnahornsins, frétta- og upplýsingavefs fyrir Blönduós og nágrenni, ásamt æskuvinum sínum. Sá hann um uppsetningu og hönnun vefsíðunnar enda lá forritun einkar vel fyrir honum. Meðal annarra áhugamála Ásgeirs voru tónlist, útivist og alls kyns tæki og tól en hann þurfti nánast undantekningarlaust að eiga nýjustu græjur, óháð því hversu nytsamlegar þær raunverulega voru.

Frá og með apríl 2023 glímdi Ásgeir við erfið hjartaveikindi en mætti þeim af miklu æðruleysi og bjartsýni. Á Landspítalanum gekk hann að eiga barnsmóður sína og ­lífsförunaut, Þorbjörgu Sveinsdóttur, þann 27. apríl 2023 eftir 28 ára samband. Við tók endurhæfing á Reykjalundi sem gekk vel og sneri Ásgeir aftur til vinnu seinna á árinu. Bakslag kom í veikindin þann 19. desember 2024 og náði Ásgeir aldrei fyrri styrk þrátt fyrir einstaklega j­ákvætt hugarfar og lífsviðhorf. Þann 9. júní hélt hann í sinn hinsta göngutúr og kvaddi þar.

Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 19. júní 2025, klukkan 13.

Elsku hjartans Ásgeir minn. Með hjartað fullt af sorg er komið að kveðjustund, allt allt of snemma. Við áttum eftir að gera svo margt saman og þótt við höfum eflaust bæði haft miklar áhyggjur af framtíðinni og þeim miklu óvissutímum sem okkar biðu, þá kannski, sem betur fer, var alltaf þessi sterka von um að ég og strákarnir ættum eftir að fá að hafa þig hjá okkur mikið lengur. Þrjátíu ár eru samt sem áður langur tími og meira en helmingur þess tíma sem þú fékkst á þessari jörðu og fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Það er huggun harmi gegn að þú hafir nú fengið hvíld frá erfiðum veikindum og þurfir ekki að þjást. Við fengum rúm tvö ár eftir ótrúlega lífsbjörg sem við fjölskyldan náðum að nýta rosalega vel. Giftum okkur loksins og við strákarnir fundum það sterkt að við værum þér allt. Ég trúi því líka að þú hafir valið að ganga þín síðustu spor með mér, konunni sem þú elskaðir svo heitt og varst alltaf svo stoltur af.

Það verður óendanlega erfitt að halda áfram án þín en ég veit að strákarnir munu heldur betur passa upp á mig og minningarnar um allar þær stundir sem við fengum að upplifa saman munu ylja okkur um ókomna tíð. Afi þinn og nafni, elsku pabbi þinn og þinn allra besti vinur og frændi Palli sem þú saknaðir hvern einasta dag hafa eflaust tekið vel á móti þér og gæta þín fyrir okkur hin sem munum sakna þín svo innilega. Farðu í friði ástin mín eina og hafðu þökk fyrir allt og allt. Þín Tobba.

Þorbjörg.

Elsku pabbi.

Ég get eiginlega ekki útskýrt hvernig mér líður. Ég trúi þessu eiginlega ekki. Það er svo margt sem við áttum eftir að ræða og svo margt sem við áttum eftir að gera. Samt einhvern veginn er engin eftirsjá. Bara þakklæti. Jafnvel þótt þú hafir farið allt of snemma.

Stefán Haukur.

Pabbi minn elskaði impressionisma. Hann vildi skýrar myndir sem túlkuðu einfalda hluti og hann hlustaði á tónlist sem var grípandi. Ekkert „busy“ sagði hann! Það gat oft verið erfitt að sýna honum tónlistina sem ég var að hlusta á, en ég lét það ekki hindra mig í að reyna. Hann hélt því fram að ég væri með alveg eins tónlistarsmekk og hann en pældi ekkert í því að við vorum bara að hlusta á lögin sem hann þoldi. Ég þótti alltaf mjög óþolinmóður þegar mér datt í hug að skipta um lag.

Það var alltaf mikil hátíð í bæ þegar pabbi settist fyrir framan sjónvarpið til þess að horfa á klippur af tónleikum með sveitum eins og The Eagles, sem hann hélt mikið upp á. Ég vildi óska þess að ég hefði fengið að eyða helmingi lengri tíma með honum að spjalla um allt frá hafi til himna. Pabbi var mjög skeptískur að eðlisfari, og þá sérstaklega þegar ég bar undir hann hinar og þessar kenningar sem mér þóttu skemmtilegar. Þrátt fyrir það trúði hann því af öllu hjarta að það væri ekkert mál fyrir reynda dáleiðara að dáleiða heilan sal af fólki á sýningum í Las Vegas.

Hann var mjög duglegur að horfa á íþróttir sem hann gat sjálfur ekkert í. Pabbi ætlaði sér alltaf að verða mikill íþróttamaður og að hans sögn hafði enginn í hverfinu roð við honum í gamla daga. Þegar ég var í mínu versta formi var það alltaf hann sem dró mig út að labba. Þá vildi hann gjarnan segja mér hvað hann var flinkur á hjólaskautum, svo ekki sé minnst á hlaupastöðurnar sem hann æfði þegar hann var sjálfur á mínum aldri. Áður en ég vissi af var það ég sem var farinn að draga hann út í göngutúr. Ég var farinn að spyrja hann út í uppáhalds Smiths-plöturnar hans og biðja hann um að mæla með Sting-plötu fyrir mig.

Á seinni árum er ég farinn að dreifa boðskapnum sem ég lærði frá honum, að samgleðjast frekar en að öfunda, og að uppbyggileg gagnrýni geti verið hin mesta gjöf. Ég hóf að kynnast allt öðrum manni, ekki bara föður mínum. Það var þessi maður sem varð fljótt minn besti vinur, sem ég kvaddi þann 9. júní þegar hann gekk út um dyrnar með móður minni sem hann elskaði meira en lífið sjálft. Til þess að gera það skýrt að hann væri farinn þá ullaði hann á mig eins og hann var vanur að gera, eins og síðasti tónninn í lagi sem maður kann utan að. Ég hefði ekki viljað kveðja hann öðruvísi.

Torfi Sveinn.