Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Birta þarf skýrar myndir af fyrirhuguðu útliti bygginga í Vesturbugt, m.a. séð frá mannlegu sjónarhorni á jörðu niðri, en ekki fuglsins fljúgandi.

Kjartan Magnússon

Fjölmargir Reykvíkingar hafa áhyggjur af fyrirhugaðri uppbyggingu í Vesturbugt. Bent hefur verið á að ríkjandi deiliskipulag sé í andstöðu við staðaranda svæðisins og í hróplegu ósamræmi við aðliggjandi byggð. Hefur aðgerðahópur íbúa í Gamla Vesturbænum efnt til undirskriftasöfnunar og funda til að mótmæla gildandi skipulaginu og áformum um ofurþéttingu.

Örn Valdimar Kjartansson, framkvæmdastjóri Vesturbugtar, skrifar grein í Morgunblaðið 13. júní og andmælir grein minni um málið 5. júní. Ýmsar rangfærslur koma fram í grein Arnar, sem þarft er að leiðrétta.

Fullyrðir Örn að ég hafi gefið í skyn í grein minni að fyrst hafi greiðsla verið innt af hendi fyrir byggingarreitinn í Vesturbugt og síðan farið í að fá aukið byggingarmagn til að réttlæta greiðsluna. Þessi fullyrðing Arnar er tilhæfulaus með öllu enda var ekkert slíkt gefið í skyn, í grein minni. Ég sit í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur og veit því vel að borgin seldi umræddan reit síðla árs 2024 eftir að nýtt deiliskipulag hafði verið samþykkt. Erfitt er að skilja hvaða tilgangi slíkar rangfærslur eiga að þjóna.

Örn er afar ósáttur við mynd, sem birtist með grein minni. Reyndar svo ósáttur að hann talar um „myndir“ í fleirtölu þótt myndin hafi aðeins verið ein. Er þessi ónákvæmni óneitanlega í stíl við margt annað í grein Arnar.

Deila má um hversu vel umrædd mynd þjónar því hlutverki að sýna útlit fyrirhugaðrar byggðar við Vesturbugt þar sem hún tekur mið af eldra skipulagi. Ástæðan fyrir myndavali mínu er sú að ég hef ekki tiltækar aðrar myndir, sem sýna vel umfang fyrirhugaðra bygginga séð frá Gamla Vesturbænum. Umrædd mynd ætti þó að gefa góða hugmynd um byggingarmagn á reitnum enda urðu afar litlar breytingar á því (-0,5%) þegar nýtt deiliskipulag leysti eldra skipulag af hólmi á síðasta ári. Leyfilegur fjöldi íbúða er nú 177 íbúðir í stað 170 áður. Myndin gefur því góða hugmynd um leyfilegt byggingarmagn á reitnum hvort sem litið er á núverandi eða fyrrverandi deiliskipulag hans.

Auðvitað hefði mér þótt æskilegast að skýringarmyndin með grein minni hefði verið glæný og í fullu samræmi við fyrirhugaða uppbyggingu í Vesturbugt. Sætir furðu að teikningar af fyrirhuguðu útliti bygginga liggi ekki enn fyrir í gögnum borgarinnar þrátt fyrir að framkvæmdir eigi að hefjast innan skamms. Hafa þær ekki heldur verið kynntar fyrir aðgerðahópi íbúa þótt ítrekað hafi verið kallað eftir þeim.

Með grein Arnar birtast tvær myndir. Afar lítið er á þessum myndum að græða fyrir þann, sem vill átta sig á umfangi eða endanlegu útliti fyrirhugaðra bygginga í Vesturbugt enda ná myndirnar yfir stórt svæði og sjónarhornið er í nokkur þúsund feta hæð.

Það er elsta bragðið í bókinni að sýna myndir úr mikilli hæð þegar umdeild uppbyggingarverkefni eru kynnt. Þá er vísvitandi forðast að sýna hvernig byggingarnar líta út séð frá jörðu eða næsta nágrenni.

Margvíslegt klúður hefur orðið í byggingarmálum í borginni á kjörtímabilinu, sem draga þarf lærdóm af. Nefna má Græna gímaldið í Breiðholti og blokkir í Gufunesi en endanlegt útlit þeirra kom ekki bara íbúum heldur einnig mörgum í borgarkerfinu í opna skjöldu. Æskilegt er að byggingaraðilar geri fulla grein fyrir útliti bygginga sem fyrst í skipulagsferlinu svo íbúar átti sig á því hvaða byggingar muni rísa í næsta nágrenni þeirra.

Örn segir í niðurlagi greinar sinnar að uppbyggingaraðilar í Vesturbugt hafi mikinn metnað til að byggja framúrskarandi hafnarbyggð með góðu íbúðarsvæði og svæðið þar í kring að sameiginlegu útisvæði allra borgarbúa. Sjálfsagt er að taka þessi orð enda eru þau vonandi skrifuð af einlægni.

Ástæða er til að skora á byggingaraðila í Vesturbugt að birta sem fyrst skýrar myndir af fyrirhuguðu útliti bygginga þar, m.a. séð frá mannlegu sjónarhorni á jörðu niðri en ekki fuglsins fljúgandi. Á slíkum grundvelli góðra skýringarmynda væri hægt að eiga góð samtöl við íbúa í nágrenninu, borgarfulltrúa og aðra borgarbúa um gæði fyrirhugaðrar uppbyggingar í Vesturbugt, í stað þeirra takmörkuðu upplýsinga sem nú liggja fyrir.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon