Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við erum búin að bíða og bíða. Það er gleðiefni að ná loksins að opna,“ segir Arnar Þór Gíslason veitingamaður.
Arnar rekur fjölda veitingastaða í miðborg Reykjavíkur. Nýverið tók félag hans yfir rekstur írska barsins The Drunk Rabbit í Austurstræti. Hann bjóst við að fá bráðabirgðaleyfi strax daginn eftir en við tók sex vikna bið eftir starfsleyfi. Biðinni lauk loks í gær.
„Á 20 árum hef ég aldrei lent í þessu,“ segir Arnar en hann er einn þeirra sem hafa þurft að glíma við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem fylgir eftir nýrri reglugerð um hollustuhætti. Þegar leyfi er samþykkt þarf það að fara í kynningu á heimasíðu eftirlitsins í fjórar vikur. Eftir það geta liðið aðrar fjórar vikur í bið eftir endanlegri ákvörðun.
„Við höfum orðið fyrir gríðarlegu tjóni. Húseigandi gefur ekki afslátt af leigunni og starfsmenn þurfa að fá laun til að geta lifað. Ég óska engum að lenda í þessu,“ segir Arnar. Hann kveðst vorkenna starfsfólki hjá heilbrigðiseftirlitinu sem framfylgi einfaldlega þeim lögum og reglum sem eru í gildi. „Þetta er bara venjulegt fólk að vinna vinnuna sína en fær á sig allar skammirnar. Ef það á að breyta þessum reglum til að auðvelda þeim og öðrum lífið þá fagna ég því.“
Arnar segir að þessi langa bið hafi verið nýtt til að hressa upp á staðinn. The Drunk Rabbit hefur verið rekinn í níu ár og tími var kominn á endurbætur. „Við nýttum tímann vel, tókum í gegn rafmagn og máluðum. En það hefði vissulega verið betra að gera það bara á morgnana meðan staðurinn er lokaður.“