Logi Kjartansson
Logi Kjartansson
Stjórnvaldsákvörðun Akureyrarbæjar varðandi skipulags- og byggingarréttarmálefni ógilt.

Logi Kjartansson

Nýlega ógilti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tiltekna stjórnvaldsákvörðun Akureyrarbæjar í máli viðvíkjandi óleyfisframkvæmdum í friðaðri fasteign á Akureyri, sem er tvískipt íbúðarhúsnæði. Eigandi neðri hæðar kærði nánar greint synjun bæjarins um að grípa til viðhlítandi ráðstafana samkvæmt mannvirkjalögum vegna fyrrgreindra framkvæmda af hálfu eiganda á efri hæð hússins en fyrir þeim skorti bæði framkvæmdarleyfi sem og álit húsafriðunarnefndar en ljóst er að umrætt hús er friðað samkvæmt lögum um menningarminjar, enda reist árið 1903. Af hálfu kæranda var því fram haldið að m.a. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hefði verið virt að vettugi í málinu af Akureyrarbæ og féllst úrskurðarnefndin á það með kæranda, enda ekkert komið fram um að leitast hefði verið við að upplýsa málið með nauðsynlegri og nægilegri upplýsingaöflun, til að mynda vettvangsskoðun, í samræmi við kröfur reglunnar. Þá þótti skorta rökstuðning bæjarins fyrir hinni kærðu stjórnvaldsákvörðun.

Það sem álíta má sérstaklega mótsagnarkennt í máli þessu varðandi stjórnsýslu og þannig vinnubrögð Akureyrarbæjar er að skipulagsfulltrúi bæjarins hafði árið 2018 veitt þáverandi eiganda efri hæðar fasteignarinnar, sem var upphafsmaður umgetinna framkvæmda, skriflega og þannig ótvíræða viðvörun um að dagsektum yrði beitt af hálfu bæjarins sökum skorts á lögboðnum framkvæmdarleyfum. Á einhvern dularfullan hátt og af óútskýrðum ástæðum virðist fyrrgreint viðvörunarbréf og ólögmætisyfirlýsing skipulagsfulltrúa hafa horfið úr málaskrám bæjarins, þó ítrekað hefði verið leitað eftir því allar götur frá nóvember 2022. Það var þó líkt og Akureyrarbær hefði aldrei komið nálægt yfirlýsingu um ólögmætisástand. Bærinn lét raunar að því liggja að ástandið samkvæmt tilgreindu viðvörunarbréfi væri hugarórar kæranda þar sem vísað var til þess að kærandi „…telur vera óleyfisframkvæmd“. Bréfið fékkst loks fram á meðal gagna frá bænum, fyrst í febrúar á þessu ári. Kvað bæjarlögmaður þá viðvörunarbréfið með fyrrnefndri dagsektarboðun hafa „…fallið milli skips og bryggju“ án þess að nokkuð væri útskýrt hvers vegna og hvernig það skjalahvarf hefði atvikast.

Það sem einnig vakti verulega furðu í starfsháttum stjórnar Akureyrarbæjar er að hún skilgreindi bæinn og þá um leið sjálfa sig sem aðila máls; nánar greint varnaraðila. Eins og þeim sem eitthvað þekkja til grundvallaratriða opinberrar stjórnsýslu hlýtur að vera ljóst, eða í það minnsta má almennt vera kunnugt um, telst stjórnvald sem hefur mál borgarans til meðferðar yfirleitt aldrei geta átt aðild að málum í merkingu laga, enda stjórnvöldum að stjórnarskrá landsins og lögum falið að leysa úr málum og erindum borgaranna af hlutlægni og réttsýni og þannig með óvilhöllum og óhlutdrægum hætti. Af þessum ástæðum sérstaklega dró kærandi m.a. einnig í efa hæfi og þannig hlutlægni af hálfu bæjarins við meðferð og úrlausn málsins líkt og nærri má geta og þá einnig vegna forsendu þeirrar hæfisreglu m.a. stjórnsýslulaga að sá er hefur aðilastöðu í stjórnsýslumáli telst vanhæfur til undirbúnings sem og að öðru leyti meðferðar og úrlausnar þess. Eins og áður greinir ógilti úrskurðarnefndin áðurgreinda stjórnvaldsákvörðun Akureyrarbæjar með skýrum og afdráttarlausum hætti.

Höfundur er lögfræðingur og umboðsmaður kæranda í málinu.

Höf.: Logi Kjartansson