Brynhildur Glúmsdóttir
brynhildur@mbl.is
Gert er ráð fyrir að fjórtán alþingismenn verði fjarri þingstörfum næstu daga samkvæmt því sem fram kemur á vef Alþingis, þar sem þeim er ætlað að sækja fundi erlendis. Þing er enn í fullum gangi og munu þeir því missa af afgreiðslu fjölda mála.
Á þessum tíma árs er vaninn að þinginu hafi verið frestað fram á haust. Þá liggur fyrir að margir þingmenn verði erlendis að sinna alþjóðastörfum á vegum þingsins.
Enn er eftir að afgreiða fjölda mála og hafa ýmsir þingmenn bent á það undanfarnar vikur að óraunhæft hafi verið að þingstörfum myndi ljúka á tilsettum tíma.
Heimilt er að kalla inn varaþingmann ef þingmaður er fjarverandi í að minnsta kosti fimm daga.
Hildur Sverrisdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir fljúga til Rómar á ráðstefnu á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins sem fer fram 19.-21. júní.
Dagur B. Eggertsson ferðast einn til Brussel á leiðtogafund NATO-þingsins sem er haldinn 20. júní.
Fundur þingmanna og ráðherra EFTA-ríkjanna verður haldinn 23. og 24. júní í Tromsö og munu þau Diljá Mist EInarsdóttir, Grímur Grímsson, Ingibjörg Isaksen og Kristján Þórður Snæbjarnarson sækja hann.
Halla Hrund Logadóttir ferðast ein þingmanna til Noregs til að sitja sumarfund sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs í Stavangri dagana 23.-25. júní.
Þrír þingmenn munu sækja þingfund Evrópuráðsþingsins í Strassborg dagana 23.-27. júní, þau Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Sigríður Á. Andersen og Sigurður Helgi Pálmason.
Ársfundur ÖSE-þingsins fer svo fram í Portó 29. júní - 3. júlí og munu Arna Lára Jónsdóttir, Pawel Bartoszek og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fljúga suður til að sitja þann fund.
Þingmenn á ferð og flugi
Hildur Sverrisdóttir og Lilja Rafney til Rómar.
Dagur B. fer til Brussel á leiðtogafund NATO-þingsins.
DIljá Mist, Grímur Grímsson, Ingibjörg Isaksen og Kristján Þórður halda til Tromsö.
TIl Stavangurs fer Halla Hrund Logadóttir.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Sigríður Andersen og Sigurður Helgi heimsækja Strassborg.
Arna Lára, Pawel Bartoszek og Sigmundur Davíð fara til Portó.