Jón Ingi Cæsarsson fæddist í Reykjavík 13. desember 1952. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 7. júní 2025.
Foreldrar hans voru Þórdís Eiríksdóttir og Kristvin Kristinsson en hjónin Hulda Ragnarsdóttir og Cæsar Hallgrímsson ættleiddu hann sex daga gamlan.
Jón Ingi gekk í Oddeyrarskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar og fór síðar í Póst- og símaskólann. Starfaði hann hjá Pósti og síma, síðar Íslandspósti og Póstinum allan starfsferilinn. Hann átti lengi sæti í stjórn Póstmannafélags Íslands, fyrst árin 1984-1986, síðan 2000-2009 og árið 2017 var hann kjörinn formaður félagsins. Gegndi Jón Ingi því embætti til 2023 en tók eftir það sæti í ritnefnd félagsins.
Jón Ingi starfaði lengi að bæjarmálum á Akureyri fyrir Samfylkinguna. Var hann kjörinn formaður Samfylkingarfélags Akureyrar við stofnun þess 2001. Þá átti hann sæti í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Var Jón Ingi um tíma varabæjarfulltrúi fyrir flokkinn og átti sæti í nokkrum nefndum Akureyrarbæjar, m.a. í skólanefnd og sem formaður skipulagsnefndar og umhverfisráðs. Hann var einnig í nefnd um svæðisskipulag Eyjafjarðar. Jón Ingi var jafnframt í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum Akureyrarbæjar, m.a. samnorrænu verkefni um umhverfismál sveitarfélaga á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Eiginkona Jóns Inga er Guðrún Gunnarsdóttir, fædd 1956. Synir þeirra eru Atli Viðar, fæddur 1987, dóttir Guðrún Lára, og Bjarki Freyr, fæddur 1992, eiginkona Eydís Ósk Pétursdóttir, fædd 1995, og börn þeirra eru Baltasar Leó, Karítas Líf og Mikael Logi.
Dóttir Jóns Inga frá fyrra hjónabandi er Brynja, fædd 1975, gift Gunnari Guðjónssyni. Börn Brynju eru Móey Pála, Agnar Ingi, Lilja Björk, Katla og Helgi Blær. Barnabarnabörnin eru þrjú, Adeline Brynja, Ayon Rúnar og Azilia Margrét.
Útför Jóns Inga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 19. júní 2025, klukkan 13.
Leiðir okkar Jóns Inga lágu fyrst saman árið 1982 á Bögglapóststofunni í Reykjavík sem þá var á jarðhæð Hafnarhvolshússins vestast á Tryggvagötu á horninu við Geirsgötu. Mikil nálægð var við starfsemi Reykjavíkurhafnar þar sem allt iðaði af lífi. Næsta hús var aðsetur Skipaútgerðar ríkisins þar sem ætíð var mikið um að vera.
Það var í ýmsu að snúast, mikið var um að vera í Bögglapóststofunni sem var undir traustri stjórn þess afburða valmennis, Kristjáns Hafliðasonar frá Hergilsey á Breiðafirði. Á póstinum störfuðu allmargt póstfólk af ólíku tagi en mjög gott og farsælt samstarf einkenndi öll störf okkar.
Með okkur jafnöldrunum Jóni var ætíð mikil og góð vinátta sem hélst alla okkar tíð. Eftir að hann snéri til heimabæjar síns Akureyrar hitti ég hann alloft þá ég átti leið um Akureyri eftir að ég tók að mér leiðsögn þýskumælandi ferðamanna á leið um landið. Oft var dvalið með hópana nokkurn tíma fljótlega upp úr hádegi og jafnvel gist yfir nótt. Þá hringdi ég oft í Jón og við hittumst í spjalli, stundum yfir kaffibolla, þar sem við bárum saman bækur okkar og rifjuðum upp gömul kynni.
Mér er Jón ákaflega minnisstæður, hversu réttsýnn og traustur hann reyndist vera. Það kom aldrei upp neinn ágreiningur en oft urðu góðar og skemmtilegar samræður milli okkar. Við skiptumst oft á sendingum eftir að tölvusamskipti komu til sögunnar að ógleymdri Snjáldru eða Facebook, líklega einn vinsælasti miðillinn sem fólk tileinkar sér.
Jón var mikill baráttumaður á sviði félagsmála sem umhverfismála. Hann sýndi oft af sér mikið þor sem aðrir treystu sér ekki til. Ég tel hann hafa verið mjög farsælan í öllum sínum störfum bæði sem formaður Póstmannafélagsins sem og í bæjarmálefnum Akureyrar. Þar var hann fulltrúi Samfylkingarinnar og var öðrum góð fyrirmynd í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.
Vinum og vandamönnum sem og samstarfsfélögum er vottuð innileg samúð á kveðjustund. Við eigum góðar minningar um góðan dreng, Jón Inga Cæsarsson sem nú er látinn.
Guðjón Jensson,
Mosfellsbæ.
Í dag kveðjum við góðan vin.
Það var sárt að fá tilkynningu um andlát Jóns Inga og upp kom ýmislegt í hugann sem við nýlega höfðum planað að gera en verður nú að endurskipuleggja. Minningarnar eru margar og samleið okkar Jóns Inga löng því ég ólst upp í næsta húsi við hann og við brösuðum ýmislegt á barns- og unglingsárum ásamt því að vinna síðar saman í um fjörutíu ár. Við áttum það sameiginlegt að vera miklir Eyrarpúkar.
Þegar við fórum í bíó var helst alltaf setið í sömu sætunum, á fyrsta bekk uppi, sæti eitt, tvö, þrjú og fjögur eftir því hvað við vorum margir úr klíkunni. Eitt sinn á fyrstu árum Jóns Inga með gleraugu hafði hann gleymt þeim heima og vandaðist þá málið en hann gaf ekki sætið eftir heldur sat alla myndina og togaði augnbarmana aftur að eyrum og náði þannig að fókusa á myndina.
Þegar hann fékk bílpróf var farið út um allt á Moskvitsum sem Cæsar átti og var annar þeirra koparlitaður og 90 hestöfl. Auðvitað voru þessi hestöfl prufuð á vel völdum vegköflum. Eitt af því sem við töluðum um var þegar Jón Ingi var messagutti á Gullfossi á leið út í Evrópu. Þetta var þá eitt aðalskip skemmtiferða sem Íslendingar höfðu val á.
Hann varð félagi í Flugbjörgunarsveitinni á Akureyri en þar hafði vinur okkar, Jói Kára, skráð sig, svo Jón Ingi og síðan ég. Áttum við allir Willis-jeppa og var ferðast mikið og fór Jón Ingi víða á sínum jeppa ásamt því að vera farþegi hjá okkur hinum. Í einni af ferðum okkar Jóns með Óla tengdapabba hans urðum við bensínlausir inni við Holuhraun og máttum húkka okkur far til byggða og ná í bensín á jeppann.
Um tíma bjó Jón Ingi einn með Brynju dóttur sína og var hann nær daglegur gestur hjá okkur Bínu þar sem við spiluðum og spjölluðum. Stuttu eftir að hann og Gunnsa hófu sambúð fórum við í vikuferð til Þýskalands og Parísar og var Jón Ingi með mikla reynslu frá ferðalögum sínum því hann var vel kunnugur um hvers konar skordýr yrðu á vegi okkar.
Svo atvikast það þannig að ég leitaði eftir vinnu hjá Pósti og síma og fékk þá góð meðmæli frá Jóni sem hafði verið hjá þeim um nokkurra ára skeið. Fékk ég vinnu hjá Pósti og síma svo við vorum áfram að brasa saman og vorum vinnufélagar í um fjörutíu ár.
Jón Ingi hafði mikinn áhuga á félagsstarfi og vann mikið fyrir Póstmannafélagið og nú síðast sem formaður. Jón Ingi lét sig líka varða bæjarmálin og vorum við oft sammála en fyrir kom að við vorum ósammála og varð þá vinur minn stundum æstur en allt jafnaði það sig fljótt. Eftir að við vorum báðir hættir að vinna höfum við verið að hittast reglulega í kaffi hjá björgunarsveitinni Súlum með gömlum sveitarfélögum. Þar er búið að snerta á öllum mögulegum málum og rifja upp gamlar ferðir, þar hafði Jón Ingi lagt mikið inn og verður sárt saknað á þeim sögustundum.
Elsku Gunnsa, Brynja, Atli, Bjarki og fjölskyldur. Við Bína sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur, missir ykkar er mikill en minning um kæran vin lifir.
Skúli Rúnar Árnason.
Í dag kveðjum við Jón Inga Cæsarssson sem kvaddi okkur óvænt og of snemma.
Jón Ingi Cæsarsson var fyrst og fremst póstmaður. Eftir lok grunnskóla ætlaði hann að hefja nám í menntaskóla en tók þá ákvörðun að vinna fyrst í nokkra mánuði hjá póstinum. Sá tími varð að rúmlega hálfri öld og menntaskólinn bíður enn. Þau eru ekki mörg störfin hjá Póstinum sem Jón Ingi hefur ekki unnið. Hann var einn af þeim sem gengu í þau störf þar sem þurfti starfskrafta.
Oft kom fyrir ef við þurftum að ná í hann vegna starfsemi Póstmannafélagsins að þá var hann á hlaupum við að bera út póst á Akureyri, svaraði í símann við að leysa af landpóstinn í Eyjafirði eða stóð við bréfaflokkunarskápinn við að flýta fyrir svo að pósturinn bærist á réttum tíma til viðtakenda. Jón Ingi gegndi líka hinum ýmsu stjórnendastöðum hjá póstinum á Akureyri, þar var réttur maður á réttum stað.
Jón Ingi var póstmaður af lífi og sál og barðist alla tíð fyrir bættum réttindum og kjörum póstmanna. Hann sat í trúnaðarráði Póstmannafélagsins, var í laganefnd, í ritnefnd Póstmannablaðsins, í samninganefnd um kaup og kjör, hann var ritari stjórnar, varaformaður og formaður félagsins 2017-2023. Hann var á sama tíma í stjórn BSRB og var fulltrúi á mörgum þingum bandalagsins. Jón Ingi var fulltrúi félagsins í samstarfi norrænna póstmannafélaga og sat ráðstefnur á vegum þeirra samtaka. Eftir starfslok tók hann þátt i starfi eftirlaunadeildar Póstmannafélagsins og var formaður deildarinnar 2023-2025.
Það sem einkenndi persónuna Jón Inga var traust og trúnaður. Það var hægt að ræða við hann um menn og málefni og persónuleg mál, án þess að óttast að hann færi lengra með málið. Við sem störfuðum með honum að kjaramálum póstmanna og rekstri Póstmannafélagsins gátum alltaf reitt okkur á að Jón Ingi ætti svör við öllum spurningum, hann þekkti starfið, kjaramálin og sögu félagsins.
Jón Ingi var ætíð jafnaðarmaður og tók þátt í starfi flokka sem vinna að jöfnuði í þjóðfélaginu. Hann beindi þó kröftum sínum einkum að heimabæ sínum Akureyri þar sem hann starfaði að m.a. að umhverfismálum og skipulagsmálum.
Póstmannafélag Íslands þakkar Jóni Inga Cæsarssyni áratuga samstarf og tryggð og vottar fjölskyldu hans innilega samúð.
Þuríður Einarsdóttir, fyrrverandi formaður Póstmannafélagsins.