Kjartan Leifur Sigurðsson
kjartanleifur@mbl.is
Kvenréttindadagurinn er í dag, 19. júní, en nú eru liðin 110 ár frá því að konum, þó aðeins þeim sem höfðu náð 40 ára aldri, var veittur kosningaréttur með breytingu á stjórnarskrá. Upphaflega var ætlunin sú að lágmarksaldur kvenna til þess að hljóta kosningarétt myndi lækka á ári hverju uns hann yrði til jafns við kosningarétt karla. Hins vegar hlaut Ísland nýja stjórnarskrá árið 1920 til þess að bregðast við þeim miklu breytingum sem urðu á stjórnskipun landsins við það að Ísland var orðið fullvalda ríki. Með nýrri stjórnarskrá varð kosningaréttur kvenna jafnvígur kosningarétti karla.
Sigur, en ekki fullnaðarsigur
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í kvenna- og kynjasögu við Háskóla Íslands, segir að sigurinn sem náðist í kvenréttindabaráttunni árið 1915 hafi verið kærkominn þó ekki hafi verið um fullnaðarsigur að ræða.
„Þetta var mikill sigur sem náðist í júní 1915 og konur í landinu fögnuðu þessu mjög. Það er til að mynda til frásögn í Kvennablaði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur þar sem hátíðarhöldum vegna áfangans er lýst. Konur fögnuðu á Austurvelli og þar var skrúðganga og konur héldu ræður. Konur litu á kosningaréttinn á þann hátt að verið væri að viðurkenna þær sem löglega borgara og sjálfstæða einstaklinga í samfélaginu. Bríet setti til að mynda fram fyrirsögn í kvennablaðinu þar sem sagði: „Konur viðurkenndir löglegir borgarar í landinu,“ þannig að hér var um að ræða mjög stórt skref,“ segir Erla um þann áfanga sem náðist með stjórnarskrárbreytingunni árið 1915.
Erla segir að sú ákvörðun að veita konum kosningarétt hafi verið afrakstur mikillar baráttu kvenna sem höfðu lengi barist fyrir því að vera veittur kosningaréttur. Erla segir bera á því að því sé haldið fram að konur hafi ekki þurft að hafa mikið fyrir því að öðlast kosningarétt, það er ekki alls kostar rétt að mati Erlu.
„Mitt mat er að það sé ekki rétt, við vorum ekki með mótmælagöngur eða slíkt en það voru mjög ötular baráttukonur sem störfuðu í Kvenréttindafélaginu og víðar og má þar nefna áðurnefnda Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og fleiri konur sem skrifuðu mikið um kvenréttindamál auk þess sem þær héldu opinbera baráttufundi. Ef við notum nútímaorðalag til að lýsa þessari baráttu þá má segja að konur þess tíma hafi stundað mikinn „lobbíisma“ til þess að öðlast kosningarétt, það var sífellt verið að vinna í þeim þingmönnum sem voru kosningaréttinum andvígir og með þeim þingmönnum sem voru honum hlynntir og studdu mannréttindi, maður öðlast ekki réttindi nema þeir sem hafa valdið séu fylgjandi þeim réttindum,“ segir Hulda um baráttu kvenna á þessum tíma.
Nýsjálendingar fyrstir
Fyrsta landið til þess að veita konum kosningarétt var Nýja-Sjáland en konur í Nýja-Sjálandi öðluðust kosningarétt árið 1893, eða 22 árum á undan íslenskum konum. Í Finnlandi hlutu konur kosningarétt árið 1906 en Finnar voru fyrsta Evrópuþjóðin til þess að veita konum kosningarétt. Þess má geta að Liechtenstein veitti konum kosningarétt árið 1984, seinast evrópskra ríkja.
„Við Íslendingar vorum frekar snemma í þessu. Við vorum að fylgja þróun vestrænna ríkja, þetta var þó auðvitað töluvert seinna en til dæmis í Nýja-Sjálandi og Ástralíu og í einstökum fylkjum í Bandaríkjunum. Víðast hvar var kosningarétturinn háður miklum takmörkunum. Mörg dæmi eru um það í heimssögunni að aðeins hvítum konum af ákveðinni stétt hafi verið veittur kosningaréttur á meðan konur af ættum frumbyggja og innflytjenda voru langt á eftir,“ segir Erla um þróun kosningaréttar.
Eins og áður segir var aðeins konum sem höfðu náð 40 ára aldri veittur kosningaréttur árið 1915. Erla segir að rökin fyrir því að konum á öllum aldri hafi ekki verið veittur kosningaréttur hafi verið þau að löggjafinn mat það sem svo að tíma þyrfti fyrir mikla breytingu sem þessa og ekki væri hægt að veita öllum konum kosningarétt í einu. Upphaflega hugmyndin var sú að lágmarkskosningasaldur kvenna myndi lækka á hverju árið þangað til hann yrði til jafns við karla að fimmtán árum liðnum. Fimm árum seinna tók þó eins og áður segir ný stjórnarskrá gildi og var þá kosningaréttur kvenna færður til jafns við kosningarétt karla.
Konur fullgildir einstaklingar
Erla segir að konur sem tóku þátt í kvenréttindabaráttunni í upphafi 20. aldar hafi litið á það að öðlast kosningarétt sem tækifæri til þess að hafa áhrif á löggjöf og samfélagsmál í landinu.
„Þetta var mjög stórt skref og mikilvægt af því að kvenréttindakonur trúðu því að ef þær væru komnar með þessi lagalegu réttindi þá gætu þær farið að hafa áhrif á aðra löggjöf og á samfélagsmál og þannig bætt stöðu og réttindi kvenna. Sagan sýnir hins vegar, og fram á það er sýnt í bókinni Konur sem kjósa, að þessi þróun gekk töluvert hægar en konur vonuðust til að fá tækifæri til þess að iðka þessi réttindi og vera raunverulegir gerendur í samfélaginu. Þetta sýnir fram á það að lagaleg réttindi eru eitt en tækifæri til þess að iðka þau eru annað,“ segir Erla um þróunina sem fylgdi í kjölfar þess að konur öðluðust kosningarétt.
Fyrsta konan til að vera kjörin á Alþingi Íslendinga var Ingibjörg H. Bjarnason sem hlaut kjör árið 1922, sjö árum eftir að konur hlutu kosningarétt, fyrir hönd sérstaks kvennalista. Baráttukonan títtnefnda Bríet Bjarnhéðinsdóttir var í framboði til Alþingis fyrir heimastjórnarmenn árið 1916 og hefði orðið fyrsta konan til að hljóta kjör á Alþingi ef ekki hefði verið fyrir ný lög um útstrikanir.