Unnar Stefánsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl 1934. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 3. júní 2025.
Foreldrar hans voru Elín Guðjónsdóttir frá Eyrarbakka, f. 1898, d. 1995, og Stefán Jóhann Guðmundsson frá Norðfirði, f. 1899, d. 1988. Þau eignuðust fimm börn auk Unnars: Árni Geir, f. 1932, d. 2006, stúlka sem lést á fyrsta aldursári 1936, Guðmundur, f. 1937, d. 2021, Guðjón f. 1939, d. 2021, og Atli Þorsteinn, f. 1942.
Eftirlifandi eiginkona Unnars er María Ólafsdóttir, f. á Þingeyri 17. janúar 1939. Unnar og María gengu í hjónaband 7. ágúst 1960. Þau bjuggu í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Kristján Már, f. 1959, búsettur í Reykjavík, maki Þorgerður Sigurðardóttir, f. 1961. Börn þeirra eru María, Kristín Eygló, Ingunn Lára og Sigurður. 2) Stefán Örn, f. 1960, búsettur í Reykjavík, maki Anna Jórunn Guðmundsdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru Dóróthea Björk og María Karítas. 3) Elín Björk, f. 1963, búsett á Dalvík, maki Sveinbjörn Jóhann Hjörleifsson, f. 1956. Börn þeirra eru Þorgerður Jóhanna, Unnar Már, Jóhann Ólafur og Hjörleifur Helgi. Sonur Sveinbjarnar er Reynir Svan. Langafabörnin eru 12.
Unnar ólst upp í Hveragerði frá öðru aldursári. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1954, í fyrsta útskriftarárgangi skólans, og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1959. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu samhliða námi en hóf störf hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga árið 1959. Var deildarstjóri Lánasjóðs sveitarfélaga og frá 1968 til starfsloka 2004 ritstýrði hann tímariti sambandsins, Sveitarstjórnarmálum. Auk þess ritstýrði hann Sunnlendingi og fjölda handbóka og fræðslurita.
Á háskólaárum sínum sat Unnar í Stúdentaráði og var formaður Stúdentakórsins. Hann gekk til liðs við ungliðahreyfingu jafnaðarmanna og sat í stjórnum Félags ungra jafnaðarmanna og Sambands ungra jafnaðarmanna. Sömuleiðis í stjórn Varðbergs, félags áhugamanna um vestræna samvinnu. Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Hann leiddi lista Alþýðuflokksins í Suðurlandskjördæmi í alþingiskosningum 1959, 1963 og 1967 og tók margsinnis sæti á Alþingi sem landskjörinn varaþingmaður árin 1959-1970. Þá sat hann allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna haustið 1969 og nokkrum sinnum fundi sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins í Strassborg á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Unnar var einn forgöngumanna undirskriftasöfnunarinnar Varið land árið 1974.
Unnar átti sæti í fjölda nefnda og ráða. Má þar nefna nefnd um sameiningu sveitarfélaga, Umferðarráð, Æskulýðsráð, Leiklistarráð, Listskreytingasjóð og undirbúningsnefnd að stofnun Öldrunarráðs Íslands. Hann var lengi formaður í vinabæjanefnd Norræna félagsins og formaður Árnesingafélagsins í Reykjavík, varaformaður Sundsambands Íslands og formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni frá 2009-2013.
Útför Unnars fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 19. júní 2025, klukkan 13.
Elskulegur tengdafaðir minn hefur kvatt okkur og fylgjum við honum síðasta spölinn í dag.
Mig langar til að minnast hans í nokkrum orðum.
Ég kynntist þeim hjónum fyrir rúmum 40 árum, þau María buðu mig velkomna í fjölskylduna með hlýju sinni og gestrisni. Fljótlega var búið að grafa upp tengsl við þessa ungu háskólamær á sviði landshluta og ættar. Það var til dæmis Lúðvíg Halldórsson, minn gamli skólastjóri í Stykkishólmi, sem var skólafélagi Unnars frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Síðan var það Camilla Kristjánsdóttir amtsbókasafnsvörður í Stykkishólmi sem var frænka Maríu af Skarðsætt. Þetta voru þekktir „Hólmarar“ sem mynduðu brú milli mín og tengdaforeldranna í árdaga kynna okkar og gerðu þessi fyrstu tengsl einhvern veginn áþreifanleg. Ekki var verra að afabróðir minn, Guðmundur Pálsson, bjó í Hveragerði þar sem Unnar ólst upp og þekkti til. Öll svona tengsl voru nefnd enda hefur það alltaf skipt Íslendinga máli hvaðan maður kemur og hvurra manna maður er.
Unnar var dæmigerður maður sinnar kynslóðar, var oft í tveimur störfum þegar börnin voru að alast upp, til að framfleyta fjölskyldu sinni. Stjórnmálin áttu líka hug hans allan, en Unnar var eðalkrati af guðs náð og var meðal annars varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn um árabil. Hann hélt tryggð við Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna fram á síðasta dag.
Unnar var einhver mesti blómamaður sem ég hef þekkt. Við fæðingu barnabarnanna var hann fyrsti maður á staðinn með fallegan blómvönd, hýjasintuskreytingar fyrir jól, páskaliljur eða túlipana fyrir páska og við önnur tækifæri kom hann gjarnan með blómvönd enda maðurinn alinn upp í Hveragerði.
Það var auðfundið að hann tók hlutverk sitt sem afa af mikilli alvöru, kannski vegna mikillar vinnu sem ungur faðir.
Hann varð fljótt helsti stuðningsmaður Fylkis í kvennaknattspyrnunni og hvatti sonardætur áfram af mikilli elju og áhuga. Mætti oft með Guðjóni bróður sínum, sem var íþróttaunnandi mikill, á leiki í Árbænum sem og á útileiki. „Fylkir nú“ varð þekkt slagorð í hverfinu okkar á þessum árum.
Unnar vildi gjarnan dekra barnabörnin sín og var örlátur á allan hátt gagnvart sínu fólki. Hann varð ekki par ánægður þegar tengdadóttirin kom í veg fyrir ísgjafir, konfekt og páskaegg rétt á undan aðalmáltíðum á heimili þeirra hjóna. Ég held hann hafi samt fyrirgefið mér þá uppeldisstefnu á endanum.
Unnar var mjög fróður og vel lesinn maður sem elskaði ljóð. Hann hvatti sitt fólk til náms og starfsframa, var stoltur af hverju skrefi sem unga fólkið tók til að koma sér áfram í tilverunni.
Hann sýndi stundum viðkvæmni og tilfinningasemi en reyndi mikið að fela þá hlið á sér.
Hann var húmoristi og átti það til að lauma tvíræðum bröndurum að í umræðunni ef svo bar undir en fór mjög fínt með það.
Hann fékk dýrmæt og heilbrigð gildi í veganesti frá foreldrum sínum sem ég var svo heppin að ná að kynnast. Þessum gildum kom Unnar áfram til sinna niðja með Maríu sína sér við hlið.
Ég þakka fyrir samfylgdina elsku Unnar.
Þín tengdadóttir,
Þorgerður.