Sjöfn Þórðardóttir
sjofn@mbl.is
Samhliða Hernámssetrinu reka Gaui og eiginkona hans, Magnea Sigríður Guttormsdóttir, alla jafna kölluð Magga Sigga, kaffihúsið Hvíta fálkann þar sem allt er heimabakað. Nafnið á sér sögu og það sama á við um allar uppskriftirnar að bakkelsinu sem boðið er upp á. Þegar inn er komið bjóða hjónin undirritaðri sæti á kaffihúsinu sem er í skemmtilegu rými á setrinu.
Á Hernámssetrinu er að finna einstaka og stórmerkilega sögu hernámsins á árunum 1940-1945, sögu sem breytti friðsælli sveit í umgjörð heimsviðburða og skipti sköpum fyrir sigur bandamanna í Evrópu á þessum árum. Einnig er þar að finna fjölda minja, innanstokksmuni, húsgögn og leyndarmál frá þessum tíma.
„Ég hef gaman af fólki og sérstaklega þegar fólk segir mér sögur frá þessum tíma og það kemur mikið af eldra fólki á safnið. Það hefur margar skemmtilegar og persónulegar sögur að segja og um sína upplifun frá þessum umbrotatíma.
Fólk kemur með gamla muni til okkar og ég fæ að heyra söguna á bak við þá, einnig eru margir sem koma með muni að utan. Sem dæmi kom pakki frá Bandaríkjunum á dögunum en þar fékk ég myndir og muni frá konu en faðir hennar var staðsettur hérna í Hvalfirði á stríðsárunum. Mér þykir líka gaman að gefa þessum hlutum lengra líf,“ segir Gaui og brosir breitt.
Tæki til að gera franskar
Á safninu er að finna fjölmarga hluti, tæki og tól, sem tengjast matargerð og bakstri á hernámsárunum og komu hingað til lands með bandarísku hermönnunum í bland við hluti frá íslenskum heimilum og stöðum.
„Má þar nefna tæki til að gera franskar kartöflur, gamla vigt frá Jóhannesi á Hótel Borg, gamlar brauðristar, gamlan borðbúnað sem á sér sögu og í raun erum við með marga hluti sem voru notaðir við matargerð enda blöndum við hversdagslegum hlutum innan um þá hluti sem voru notaðir til hernaðar,“ segir Gaui og sýnir undirritaðri svæðið þar sem sjá má fallegt bollastell og silfurkönnu með öllu tilheyrandi.
Hjónin bjóða bæði einstaklingum og hópum að koma í heimsókn á setrið og eru fræg fyrir glæsileg hnallþóru- og kaffihlaðborð í anda stríðsáranna.
Kaffihúsið heitir Hvíti fálkinn
„Eins og fram hefur komið erum við að reka kaffihúsið sem ber heitið Hvíti fálkinn en Bandaríkjamenn gáfu út tímarit sem hét Hvíti fálkinn og við nefndum kaffihúsið eftir því. Við bjóðum upp á heimabakaðar kökur en þær eru allar bakaðar eftir uppskriftum frá ömmu Guðrúnu og köllum við kræsingarnar „Kökurnar hennar ömmu“.
Allt er bakað á staðnum, en okkar vinsælasta kaka er bananakakan sem var eingöngu bökuð þegar við systkinin áttum afmæli og á jólum. Svo eru það hafraklattarnir en þeir hafa verið mjög vinsælir hjá gestum. Uppskriftin kemur frá Möggu Siggu en þeir rjúka út og við þurfum alltaf að baka meira af þeim.
Í sumar ætlum við líka að bjóða upp á ekta íslenskan heimilismat eins og hann gerist bestur. Við verðum með íslenska kjötsúpu, plokkfisk og okkar vinsælu sveppasúpu. Allt þetta verður í boði á Hvíta fálkanum í allt sumar,“ segir Gaui og bætir við að í rauninni séu allar tertur og það sem þau bjóði upp á frá hernámsárunum og það sé leyndarmálið á Hvíta fálkanum.
Það er sem sagt hægt að koma til ykkar og fá það sem var á matseðlinum á stríðsárunum?
„Já, það má segja það. Þá voru það vöfflur með rabarbarasultu og rjóma og kleinur en kleinur voru mjög líkar kleinuhringjum sem Ameríkanar þekktu en konur hérna í sveitinni steiktu kleinur og seldu. Þær nutu mikilla vinsælda,“ segir Magga Sigga með bros á vör.
Eru einhverjar kökur eða kræsingar sem eru í meira uppáhaldi en aðrar sem þið finnið fyrir?
„Já, bananatertan hennar mömmu sem er 70 ára gömul uppskrift sem ég fékk frá henni. Þessi bananaterta hefur gengið í gegnum lífið með mér. Það voru ekki jól eða páskar án þessarar elsku,“ segir Gaui að lokum og býður upp á sneið og nýbakaða hafraklatta úr smiðju Möggu Siggu.
Magga Sigga gefur lesendum hér uppskriftina að klöttunum sínum og næst verður uppskriftin að bananatertunni frægu afhjúpuð.
„Magga Sigga hefur verið að baka klatta í mörg ár en dóttir mín Tinna Björt elskaði þá og í dag elskar litli ömmustrákurinn okkar Þór þá líka. Við bökuðum einmitt helling fyrir seinasta afmæli hans Þórs og þeir kláruðust og nú er þegar búið að panta þá fyrir næsta afmæli. Galdurinn að mínu mati er að setja nóg af súkkulaðibitum í deigið,“ segir Gaui og glottir út í eitt.
„Síðan er um að gera að fá sér bíltúr í sveitina og kíkja til okkar,“ segir Gaui með bros á vör.
Fyrir áhugasama er Hernámssetrið opið miðvikudaga til föstudaga frá klukkan 13-17 en um helgar er opið frá klukkan 11-17. Sumaropnun er frá 31. maí - 31. ágúst og það tekur aðeins 45 mínútur að renna upp eftir frá Reykjavík.
Klattarnir hennar Möggu Siggu
250 g sykur
200 g púðursykur
4 egg
300 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
2 tsk. kanill
1 tsk. salt
470 g gróft haframjöl
50 g kókosmjöl
100 g saxaðar döðlur
150 g súkkulaðidropar, má setja meira ef vill
Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Setjið allt hráefnið saman í skál og blandið vel saman, annaðhvort með höndunum eða í hrærivel með hnoðara. Rúllið síðan deiginu í litlar kúlur og setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír. Setjið síðan inn í ofn og bakið við 180°C í 15-20 mínútur, það fer eftir ofnum hversu langan tíma klattarnir þurfa.