Þingmenn Læknafélagið gagnrýnir að ekki standi til að lögfesta að sjúkratryggðir eigi rétt á að gangast undir aðgerðir hjá einkaaðilum hér á landi.
Þingmenn Læknafélagið gagnrýnir að ekki standi til að lögfesta að sjúkratryggðir eigi rétt á að gangast undir aðgerðir hjá einkaaðilum hér á landi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórn Læknafélags Íslands gagnrýnir að ekki standi til að lögfesta að sjúkratryggðir skuli hafa sama rétt til að leita sér læknismeðferðar hér á landi hjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu og þeir hafa til að leita læknismeðferðar í öðru aðildarríki …

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Stjórn Læknafélags Íslands gagnrýnir að ekki standi til að lögfesta að sjúkratryggðir skuli hafa sama rétt til að leita sér læknismeðferðar hér á landi hjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu og þeir hafa til að leita læknismeðferðar í öðru aðildarríki EES-samningsins, eigi þeir ekki kost á meðferð hér á landi innan tímamarka sem réttlæta megi læknisfræðilega.

Alþingi hefur nú til meðferðar stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar og ríkir víðtæk sátt um málið enda var sambærilegt frumvarp lagt fram af síðustu ríkisstjórn en ekki afgreitt. Frumvarpið var samþykkt eftir aðra umræðu í byrjun júní en vísað á ný til velferðarnefndar þingsins fyrir þriðju umræðu sem ekki hefur farið fram.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að lögfest verði heimild til að samþykkja greiðsluþátttöku vegna fyrirframákveðinna læknismeðferða erlendis í þeim tilvikum þegar sjúkratryggður á ekki kost á meðferð hér á landi innan þeirra tímamarka sem réttlæta megi læknisfræðilega með hliðsjón af ástandi og líklegri framvindu sjúkdóms. Sé sjúkratryggingastofnuninni þá heimilt að samþykkja greiðsluþátttöku vegna meðferðar í öðru aðildarríki EES.

Fram kom í áliti meirihluta velferðarnefndar þingsins um frumvarpið að við umfjöllun málsins í nefndinni hafi komið fram athugasemdir um að sambærilegt ákvæði væri ekki að finna í lögum um greiðsluþátttöku fyrirframákveðinnar læknismeðferðar sem sjúkratryggður undirgengst hjá einkareknum veitanda heilbrigðisþjónustu hér á landi. Hafi m.a. komið fram að sjúkratryggingastofnunin tæki ekki þátt í kostnaði við slíka þjónustu hér á landi, þrátt fyrir að skemmri biðtími væri eftir henni en þeirri þjónustu sem veitt sé erlendis og stofnunin niðurgreiði, og hvatt til þess að niðurgreiðsla þjónustu erlendis verði ekki frekar fest í sessi án þess að hlutur einkarekinna þjónustuaðila verði jafnaður. Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneytinu til nefndarinnar segir m.a. að þetta ákvæði frumvarpsins feli ekki í sér efnislega breytingu á réttindum sjúkratryggðra til að fá þjónustu erlendis en sé til þess fallið að auka skýrleika. Þá segir í minnisblaðinu að sjúkratryggingastofnunin hafi lagt fram tillögur til ráðherra um að samið verði við innlenda aðila ef fjöldi umsókna um aðgerðir erlendis sé stöðugur og ekki séu horfur á því að bið eftir þjónustu styttist. Taldi meirihluti nefndarinnar í ljósi þessa ekki forsendur til þess að leggja til breytingar á þessu ákvæði frumvarpsins.

Óskiljanlegt

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í velferðarnefnd lögðu fram breytingartillögu um að áður en greiðsluþátttaka sé samþykkt skuli sjúkratryggingastofnunin ganga úr skugga um að sambærileg meðferð sé ekki í boði hér á landi hjá einkaaðila að teknu tilliti til sömu viðmiða um heilsufarsástand, þróun sjúkdóms og biðtíma þjónustu. Þannig sé tryggt jafnræði milli opinberra og einkarekinna þjónustuveitenda þegar metið sé hvort skilyrði séu til greiðsluþátttöku vegna meðferðar erlendis.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins sagði við atkvæðagreiðslu um frumvarpið eftir aðra umræðu að það sé óskiljanlegt, miðað við umræðu síðustu ára, að enn sé verið að ýta undir aðgerðir erlendis en ekki hjá einkaaðilum hér á landi. Það sé mikið óhagræði fyrir sjúklinga að vera að þvælast til útlanda til að gangast undir aðgerðir sem hægt sé að gera hér, jafnvel af sömu læknum.

Breytingartillagan var felld. Í atkvæðagreiðslunni sagði Alma Möller heilbrigðisráðherra að það gerðist æ sjaldnar að sjúklingar væru sendir til útlanda til að gangast undir aðgerðir. Liðskiptaaðgerðir væru nú einnig gerðar af einkaaðilum „og ég er stolt af því að hafa sem landlæknir lagt það til þegar ríkið stóð sig ekki í stykkinu,“ sagði Alma. Hún sagði að enn væru sjúklingar sendir til útlanda í offituaðgerðir en unnið væri að því að slíkar aðgerðir verði gerðar hér heima af einkaaðila.

Eins og áður sagði var frumvarpinu vísað aftur til velferðarnefndar að beiðni Njáls Trausta Friðbertssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni, að hans sögn til að fara betur yfir möguleg kaup á umræddri þjónustu innanlands með sama hætti og gert er erlendis.

Nú hefur stjórn Læknafélags Íslands sent nefndinni umsögn um frumvarpið og skorar þar á Alþingi að breyta frumvarpinu og tryggja að allir sjúkratryggðir í þessari stöðu eigi sama rétt til að leita sér þjónustu hvort sem er hér á landi, hjá einkarekinni þjónustu eða á EES-svæðinu. „Annað er að mati LÍ gróft brot á jafnræðisreglu og mismunar sjúkratryggðum herfilega eftir efnahag,“ segir í álitinu.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson