Kjartan Leifur Sigurðsson
kjartanleifur@mbl.is
Von er á því að hestamenn landsins fjölmenni í Borgarfjörð í byrjun júlímánaðar þegar fjórðungsmót Vesturlands fer fram í Borgarnesi. Mótið fer fram 2.-6. júlí næstkomandi en um er að ræða stærsta hestamót ársins að sögn Magnúsar Benediktssonar sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra mótsins frá því árið 2023.
Fjórðungsmót Vesturlands er almennt haldið á fjögurra ára fresti og fór það síðasta því fram árið 2021 og þá einnig í Borgarnesi þar sem það hefur farið fram í nokkur skipti í röð. Magnús segir að mótshaldarar hafi á þeim tíma sem mótið var seinast haldið verið að leita leiða til þess að halda mótið rafrænt með einhverjum hætti enda var þjóðin mestallt árið 2021 í heljargreipum samkomutakmarkana. Magnús segir þó að mótið hafi það árið verið haldið á afar heppilegum tíma þegar samkomutakmarkanir voru litlar sem engar. Á annað þúsund manns mættu á mótið fyrir fjórum árum og vonast Magnús eftir að enn fleiri muni láta sjá sig í ár en miðasalan hefur farið vel af stað að sögn Magnúsar.
Fjölbreytt dagskrá
Þétt dagskrá er fram undan á mótinu. Meðal þeirra viðburða sem eru á dagskrá mótsins eru gæðingakeppni, tölt, 100 metra skeið og kynbótasýning. Magnús segir að allar keppnirnar verði vel sóttar og að erfitt sé að gera grein fyrir því eftir hvaða keppni eftirvæntingin verði mest, hann segir þó eitt ljóst og að það sé að mótið þetta árið verður firnasterkt.
„Það er rosalega mikill styrkleiki, sérstaklega í gæðingakeppninni, sem verður aðalkeppnin á Landsmóti hestamanna sem fer fram á Hólum í Hjaltadal á næsta ári. Það er mikill styrkleiki á þessu svæði sem tekur þátt í fjórðungsmótinu. Keppnin verður mjög hörð og afar sterk. Það eru stór nöfn að tryggja sér keppnisrétt á mótinu þessa dagana og þetta verður alveg meiriháttar,“ segir Magnús.
Magnús ítrekar þó að þrátt fyrir að gæðingakeppnin verði firnasterk og mikil eftirvænting sé eftir henni sé hestamennskan þess eðlis að keppt er á breiðum grundvelli og mismunandi sé hvað veki mestan áhuga fólks. Til að mynda njóti töltkeppnin ávallt mikilla vinsælda, auk þess sem barna- og unglingakeppnin sé alltaf afar áhugaverð enda sé gaman að sjá unga krakka allt niður í 10 ára gamla ná fullum afköstum á flottum hesti, það vekur alltaf vinsældir að sögn Magnúsar. Mótið sé svo sannarlega fullt hápunkta.
Koma fram aftur eftir hlé
Það verður þó ekki bara hestamennska í forgrunni á fjórðungsmótinu en á dagskrá er líka heljarinnar skemmtanahald. Goðsagnakennda mosfellska sveitin Gildran mun meðal annars koma fram en sveitin lagði upp laupana árið 2013 og hefur örsjaldan látið sjá sig síðan þá en hefur nú ákveðið að koma fram að nýju, aðdáendum sveitarinnar til mikillar gleði.
„Gildran spilar hjá okkur á laugardagskvöldinu, það er feiknagóður dansleikur þar. Gildran hefur ekki spilað í mjög langan tíma en er núna að gefa út ný lög. Fyrir okkur sem erum fædd einhvern tímann á síðustu öld er þetta alveg geggjað band. Það verður gaman að fara á það. Þetta sýnir hvað dagskráin verður fjölbreytt. Þetta verður blanda af skemmtanahaldi, góðum mat og svo náttúrlega bara gæðingar á dagskrá allan tímann,“ segir Magnús sem er mjög greinilega fullur eftirvæntingar eftir mótinu.
Mikil gróska í starfinu
Á fjórðungsmóti Vesturlands geta hross tekið þátt frá mjög stóru svæði, allt frá Vaðlaheiði í austri og að Kjós í vestri. Magnús segir að á þessu svæði sé mikil gróska í kynbótastarfinu.
„Það er mikið af kynbótahrossum af þessu svæði, það eru nýir gripir að slá í gegn á hverju einasta ári. Met eru slegin í einkunnagjöf á hverju ári og hrossaræktinni fleygir mikið fram.“
Magnús segir að í hestamennskunni sé það svo sannarlega þannig að maður er manns gaman. Mótið sem fram undan er verður fjölmennasta mannamót hestamanna þetta árið.
„Það skiptir ekki máli hvort menn eru tíu ára eða áttræðir eða af hvaða kyni maður er, allir eru að tala um sama hlutinn enda eru allir með sama áhugamálið. Menn geta líka keppt saman óháð aldri, þetta er rosalega merkilegt sport,“ segir Magnús sem er mikill hestamaður.
Eins og áður segir vonast Magnús eftir því að toppa fjöldann sem mætti á fjórðungsmótið árið 2021, þegar á annað þúsund manns mætti á mótið sem einnig fór fram í Borgarnesi. Að sögn Magnúsar verður Borgarnes staðurinn til að vera á í byrjun júlímánaðar.
„Ef þú ert hestamaður þá átt þú að mæta á fjórðungsmót. Eins og ég segi er mikil gróska í greininni og það eru mót núna helgi eftir helgi þar sem úrtökur vegna fjórðungsmótsins fara fram. Menn eru að ná inn á þessi mót og þetta er bara mjög stór viðburður og sannkölluð skyldumæting fyrir hestamenn,“ segir Magnús að lokum.