Leið fyrrverandi alþingismanna og maka lá til Grindavíkur 12. júní síðastliðinn. Á veitingahúsi var hlaðborð með sveppasúpu og lambakótelettum löðrandi í smjöri. Guðni Ágústsson byrjaði á súpunni og ætlaði svo í aðalréttinn, en var sagt að það væri ekki innifalið

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Leið fyrrverandi alþingismanna og maka lá til Grindavíkur 12. júní síðastliðinn. Á veitingahúsi var hlaðborð með sveppasúpu og lambakótelettum löðrandi í smjöri. Guðni Ágústsson byrjaði á súpunni og ætlaði svo í aðalréttinn, en var sagt að það væri ekki innifalið. „Það skiptir engu máli, ég borga það bara sjálfur,“ svaraði hann. Séra Hjálmar Jónsson var í ferðinni, glorhungraður, en þegar honum varð litið um salinn, sá hann Guðna stanga úr tönnunum. Varð honum að orði:

Atlætið var ólíkt hér

eftir skýrum sönnunum.

Súpugutl var gefið mér

en Guðni stangar úr tönnunum.

Þaðan lá leiðin í móttöku á Bessastaði. Séra Hjálmar sá um að þakka Höllu Tómasdóttur forseta heimboðið:

Forseta við fengum nýjan,

fögnum henni eins og sést.

Birtan, gleðin, brosið, hlýjan

Bessastaði prýðir mest.

Björn er hennar gæfa og gifta

með góða kosti eiginmanns

enda finnst henni engu skipta

útlitið á skónum hans.

Þegar rísa ógnaröldur

og ófrið víða greina má

sómi Íslands, sverð og skjöldur,

sértu kæra Halla þá.

Guðmundur Lýðsson gaukaði að þættinum skeyti sem Halldór Blöndal sendi ömmu sinni, Sigríði Lýðsdóttur í Litlu-Sandvík, á afmælisdaginn árið 1959. Halldór hafði verið í sveit í Litlu-Sandvík:

Muna lengi litlir drengir

ljúfar stundir.

Seinast mun ég Sandvík gleyma,

Sandvík var mitt annað heima.

Pétur Stefánsson orti á þjóðhátíðardaginn:

Ó mín glæsta ættarjörð,

ég elska þig og virði.

Fjöll og dali, frjóan svörð,

um fátt ég annað hirði.

Þó að vetrarveðrin hörð

valdi sumum kvíða

mun ég stoltur standa vörð

um strjálbyggt landið fríða.

Vísa Þorleifs Geirssonar var með öðrum brag:

Féllu úr lofti feitir dropar.

Flúði ég inn á barinn minn.

Margir voru þar mældir sopar,

en man ég svo ekki afganginn.