Teheran Hvítur reykur lá yfir höfuðborg Írans í gær eftir loftárásir Ísraelshers á skotmörk í nágrenni borgarinnar.
Teheran Hvítur reykur lá yfir höfuðborg Írans í gær eftir loftárásir Ísraelshers á skotmörk í nágrenni borgarinnar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísraelar og Íranir skiptust enn á loftárásum í gær, sjötta daginn í röð. Ali Khamenei æðstiklerkur Írans lýsti því yfir í gær að Íranir myndu aldrei gefast upp, en yfirlýsing hans kom í kjölfar þess að Trump Bandaríkjaforseti kallaði eftir…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ísraelar og Íranir skiptust enn á loftárásum í gær, sjötta daginn í röð. Ali Khamenei æðstiklerkur Írans lýsti því yfir í gær að Íranir myndu aldrei gefast upp, en yfirlýsing hans kom í kjölfar þess að Trump Bandaríkjaforseti kallaði eftir „skilyrðislausri uppgjöf“ Írana, en hann sagðist í gær enn vera að íhuga hvort Bandaríkjaher ætti að blanda sér í átökin.

„Ég mun kannski gera það, ég mun kannski ekki gera það. Ég meina, enginn veit hvað ég ætla að gera,“ sagði Trump við blaðamenn í gær. Sagði Trump að Íranir væru í mjög vondum málum og að þeir vildu gjarnan semja við Bandaríkin um kjarnorkuáætlunina til þess að binda enda á árásir Ísraela.

Trump sagði einnig að þolinmæði sín væri á þrotum gagnvart Írönum, og því hefði verið gripið til þeirra aðgerða sem nú væru í gangi gegn Íran. Sagði Trump þó aðspurður að það væri orðið frekar seint til þess að semja, en þó ekki of seint.

Khamenei æðstiklerkur varaði hins vegar Trump og Bandaríkin við því að þau myndu verða fyrir „óbætanlegum skaða“ ef Bandaríkjaher hæfi árásir á Íran. „Þessi þjóð mun aldrei gefast upp,“ sagði Khamenei í ræðu sem flutt var í íranska ríkissjónvarpinu.

Bandaríkjaher hefur sent nokkurn liðsauka til Mið-Austurlanda síðustu daga, og hefur því verið velt upp að þeir herflutningar séu undirbúningur að loftárásum hans á kjarnorkuinnviði Írana. Er þar helst nefnt til sögunnar úran-auðgunarstöð þeirra í Fordó, en hún er grafin í jörð á dýpi sem ísraelski herinn hefur ekki tækni til þess að sprengja í loft upp.

Bandaríkjamenn hafa einnig sent hergögn til Ísraelsríkis, en gengið hefur mjög á birgðir þeirra af loftvarnarflaugum í árásum Írana síðustu daga. Hefur verið áætlað að Ísraelsher eyði sem nemur um 285 milljónum bandaríkjadala á dag eða sem nemur rétt rúmum 35 milljörðum íslenskra króna í viðleitni sinni til þess að verjast árásum Írana.

Íranir skutu í gær ofurhljóðfráum eldflaugum á Ísraelsríki að sögn ríkisfjölmiðla þar, og er það í fyrsta sinn frá upphafi átakanna ef marka má yfirlýsingar þeirra. Þá gáfu Íranir einnig út viðvörun til íbúa borgarinnar Haífa um að þeir ættu að flýja borgina, en viðvörunin var líklega hugsuð í hefndarskyni fyrir sambærilegar viðvaranir Ísraelshers til íbúa í Teheran, höfuðborg Írans.

Ísraelsher sagði í yfirlýsingu sinni að loftvarnarkerfi landsins væru í fullum gangi við að stöðva eldflaugarnar, en ekki var víst um lyktir árásarinnar þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Klerkarnir herða á ritskoðun

Stjórnvöld í Íran tilkynntu í gær að þau hefðu hert á ritskoðun sinni á netinu, og sögðu þau í yfirlýsingu sinni að Ísraelar hefðu „misnotað samskiptakerfi landsins í hernaðarlegum tilgangi“. Stjórnvöld hófu ritskoðun sína á netinu á föstudaginn, strax í kjölfar fyrstu loftárása Ísraelshers, en breska hugveitan NetBlocks sagði í gær að hin nýja ákvörðun klerkastjórnarinnar þýddi að Íranir væru nú nærri því algjörlega án nettengingar við umheiminn.

Ríkisfjölmiðlar í Íran hvöttu almenning í fyrradag til þess að eyða snjallsímaforritinu WhatsApp úr símum sínum og sögðu að forritið safnaði saman upplýsingum um staðsetningar og persónugögn þeirra, og sendu áfram til „síoníska óvinarsins“.

Talsmaður WhatsApp sagði í gær að fullyrðingar klerkastjórnarinnar væru alrangar, og að fyrirtækið hefði áhyggjur af því að þær myndu verða notaðar sem tylliástæða til þess að loka á þjónustu þess einmitt þegar almenningur hefði mest þörf fyrir hana.

Pútín býður fram aðstoð sína

Fregnir bárust af því í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði hug á því að miðla málum í átökunum á milli Ísraels og Íran, en Rússar hafa verið einn helsti bandamaður Írana síðustu árin. Pútín hefur hringt í bæði Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels og Masoud Pezeshkian Íransforseta í vikunni til að ræða stöðuna.

Trump Bandaríkjaforseti afþakkaði hins vegar boð Pútíns í gær. „Hann bauðst í alvörunni til þess að hjálpa til við að miðla málum,“ sagði Trump og bætti við að hann hefði tjáð Pútín að hann ætti frekar að einbeita sér að því að binda enda á innrásina í Úkraínu. „Ég sagði: Vladimír, miðlum málum varðandi Rússland fyrst, þú getur haft áhyggjur af þessu síðar,“ sagði Trump við blaðamenn.

Nicole Grajewski, sérfræðingur hjá hugveitunni Carnegir Endowment for International Peace, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna í gær að markmið Pútíns með því að bjóða fram aðstoð sína væri tvíþætt. Annars vegar vildi Pútín undirstrika mikilvægi Rússlands í alþjóðakerfinu þrátt fyrir að það hefði verið sniðgengið í kjölfar Úkraínustríðsins, og hins vegar vildi hann reyna að tryggja að klerkastjórnin héldi velli, en árásir Ísraelshers eru sagðar hafa vegið mjög að stöðugleika hennar innan Írans.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson