Skemmtiferðaskip Hollenska skipið Zuiderdam siglir inn Skutulsfjörðinn í átt að Ísafjarðarbæ.
Skemmtiferðaskip Hollenska skipið Zuiderdam siglir inn Skutulsfjörðinn í átt að Ísafjarðarbæ. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hagsmunaaðilar á Vestfjörðum furða sig á vinnubrögðum stjórnvalda að undanförnu í málum sem snerta fjórðunginn, að sögn Sigríðar Ó. Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu. Sigríður vísar þar til stóraukinnar gjaldheimtu, vegna móttöku…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hagsmunaaðilar á Vestfjörðum furða sig á vinnubrögðum stjórnvalda að undanförnu í málum sem snerta fjórðunginn, að sögn Sigríðar Ó. Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu. Sigríður vísar þar til stóraukinnar gjaldheimtu, vegna móttöku skemmtiferðaskipa og hjá útgerðarfyrirtækjum; innviðagjöld og veiðigjöld.

„Þetta snýst um fyrirsjáanleika. Um þessar mundir heyrum við mikið frá erlendu skipafélögunum sem eru að breyta sínum áætlunum og það mun taka tíma að byggja aftur upp traust í þessum bransa vegna ákvarðana íslenskra yfirvalda. Þetta er alvarleg staða fyrir þetta svæði,“ segir Sigríður og bendir á að innviðagjaldið sé þegar farið að hafa áhrif á bókanir skemmtiferðaskipa.

„Þarna er stórum breytingum, sem hafa gífurlega miklar afleiðingar, skellt á með örstuttum fyrirvara. Að hækka gjaldið er ekki aðalmálið heldur vinnubrögðin. Ef boðuð væri hækkun á nokkrum árum þá geta fyrirtæki unnið út frá því.“

Innviðagjaldið var tekið upp í byrjun janúar, en það felur í sér að ríkissjóður innheimtir 2.500 krónur á hvern farþega skemmtiferðaskipa fyrir hvern sólarhring sem þau dvelja við strendur landsins. Fram kom hér í blaðinu í gær að niðurstöður skýrslu um áhrif innviðagjalds á komur skemmtiferðaskipa til landsins, sem ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics vann fyrir Hafnasamband Íslands, sýna að gjaldið gæti orðið til þess að ríkissjóður verði af milljörðum króna næstu árin.

Samráðið verður tímasóun

Í rekstri fyrirtækja eru gjarnan gerðar áætlanir nokkur ár fram í tímann. Naumur tími gafst til að bregðast við þegar breytingar á lögunum voru samþykktar 18. nóvember í fyrra og höfðu fyrst komið fram í fjárlagagerð um haustið.

„Þetta eru forsendubreytingar fyrir fyrirtækin og samfélögin. Hér í Ísafjarðarbæ voru til að mynda lögð hundruð milljóna í hafnarkant til að geta tekið á móti stórum skipum. Þetta eru fjárfestingar ríkis og sveitarfélagsins sem munu ekki nýtast sem skyldi vegna þessara stóru ákvarðana sem teknar eru með skömmum fyrirvara í einhverjum ólgusjó í tengslum við kosningar. Við höfum ekki séð að tekin hafi verið ákvörðun um að breyta þessu. Ákvarðanirnar varðandi veiðigjöldin og innviðagjald voru í raun teknar áður en til samráðs kom. Samráðið verður því tímasóun fyrir alla. Ég get alla vega ekki séð að mikið hafið verið hlustað í þessum tveimur málum. Ekki ennþá alla vega,“ segir Sigríður og bendir á að margir þjónustuaðilar muni finna fyrir því þegar færri skemmtiferðaskip heimsækja Vestfirði.

„Innviðagjaldið varðar miklu fleiri en bara skipafélögin því við sjáum hérna áhrifin á minni fyrirtækin eins og rútufyrirtækin og ferðaskrifstofurnar. Í tengslum við veiðigjöldin á sjávarútvegi þá sjáum við að þau munu hreinlega hafa áhrif á allt á svæðinu. Það eru iðnaðarmennirnir og öll fyrirtækin sem þjónusta sjávarútveginn. Við vitum að talað er um að setja fjármuni í innviðauppbyggingu en ég velti fyrir mér hvar áhrifin verða þegar þú tekur frá einum til að borga öðrum. Við leggjum áherslu á sjálfbærni atvinnulífsins. Ef atvinnulífið dafnar þá dafnar samfélagið,“ segir Sigríður.

Höf.: Kristján Jónsson