Embætti lögreglustjórans á Austurlandi hefur verið auglýst laust til umsóknar. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra bauð Úlfari Lúðvíkssyni, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, stöðuna

Embætti lögreglustjórans á Austurlandi hefur verið auglýst laust til umsóknar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra bauð Úlfari Lúðvíkssyni, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, stöðuna. Hann afþakkaði hana og lét frekar af störfum þegar honum var tilkynnt að staða hans yrði auglýst að skipunartíma liðnum.

Í auglýsingu segir: „Lögreglustjórinn á Austurlandi fer með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi. Hann annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Lögreglustjórinn á Austurlandi á sæti í lögregluráði, sem hefur það hlutverk að efla samráð á meðal lögreglustjóra og samhæfa störf lögreglu.“

Margrét María Sigurðardóttir var lögreglustjóri á Austurlandi þar til í vor er hún var skipuð í embætti framkvæmdastjóra nýrrar Mannréttindastofnunar Íslands. Umsóknarfrestur er til og með 30. júní. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir. Miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 1. ágúst næstkomandi.