[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag eru liðin 110 ár frá því að Kristján 10. Danakonungur undirritaði konungstilskipun, þar sem núverandi hönnun íslenska fánans var fest í gildi. Var hönnun fánans lýst sem svo í tilskipuninni: „Heiðblár (Ultramarine-blár) með hvítum krossi …

Baksvið

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Í dag eru liðin 110 ár frá því að Kristján 10. Danakonungur undirritaði konungstilskipun, þar sem núverandi hönnun íslenska fánans var fest í gildi. Var hönnun fánans lýst sem svo í tilskipuninni: „Heiðblár (Ultramarine-blár) með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.“

Fánamál Íslendinga höfðu verið í deiglunni í nokkra áratugi áður en konungstilskipunin festi núverandi hönnun í sessi. Fyrsti „íslenski“ fáninn sem vitað er til að flaggað hafi verið hér á landi tilheyrði raunar Innréttingunum, sem Skúli Magnússon fógeti hafði veg og vanda af. Er sá fáni sagður hafa verið rauður með mynd af flöttum þorski, og þar undir voru stafirnir P.I.I., sem stóðu fyrir Privilegerede Islandske Interessenter.

Næst er vitað um séríslenskan fána árið 1809, þegar Jörgen Jörgensen, öðru nafni Jörundur hundadagakonungur, rændi hér völdum um sumarið. Jörundi var fátt óviðkomandi er sneri að íslenskum stjórnarháttum, og ákvað hann 11. júlí að fáni Íslands skyldi vera blár með þremur flöttum þorskum í efri stangarreit. Var fáninn dreginn að húni á hádegi 12. júlí 1809 og hylltur með fallbyssuskotum. Jörundi var hins vegar „steypt af stóli“ í ágúst og var lítið tilefni eftir það til þess að flagga fána hans.

Þorsknum varpað fyrir róða

Báðir þessir fánar notuðu flatta þorskinn í hönnun sinni, og lengi vel var hann helsta þjóðartákn Íslendinga. Eftir því sem leið á 19. öld fjölgaði hins vegar þeim sem þótti tignarlegra að hafa fálka í stað þorsks sem táknmynd þjóðarinnar. Lagði Sigurður Guðmundsson málari til í kringum árið 1870 að fáni þjóðarinnar yrði þess í stað hvítur eða silfurlitaður fálki á bláum grunni.

Var þeirri tillögu tekið fagnandi og tóku stúdentar fálkafánann upp árið 1873. Vinsældir fálkafánans jukust svo enn ári síðar, en þá var haldin þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Naut fálkinn mikilla vinsælda sem þjóðarmerki, og var hann m.a. gerður að skjaldarmerki þjóðarinnar árið 1903. Þá var fálkafána oft flaggað við hátíðahöld hér á landi undir lok 19. aldarinnar.

Einar Benediktsson skáld ritaði merkilega grein í blað sitt, Dagskrá, hinn 13. mars 1897 um fána og skjaldarmerki þjóðarinnar. Gerði hann þar glöggan greinarmun á fána og skjaldarmerki, og lagði til að í stað fálkafánans yrði tekinn upp fáni með hvítum krossi á bláum feldi.

Greinin markaði tímamót í fánamálinu því að „hvítbláinn“ varð feikilega vinsæll meðal íslensku þjóðarinnar og er óhætt að segja að meginþorri Íslendinga á þeim tíma hefði viljað að fáninn yrði viðurkenndur sem fáni Íslands.

Fleiri hugmyndir voru þó á kreiki, sem of langt mál væri að gera skil hér, en sú eina sem náði einhverri fótfestu var hugmynd sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður lagði fram á fundi Stúdentafélagsins í Reykjavík hinn 27. september 1906, um hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi í miðju.

Til tíðinda dró 12. júní 1913, en þá hélt Einar Pétursson út á Reykjavíkurhöfn á kappróðrabáti sínum og flaggaði hvítbláni. Skipstjórinn á varðskipinu Islands Falk gerði fánann hins vegar upptækan, þar sem hann væri ekki löglegur siglingafáni. Olli atvikið mikilli spennu, sem leiddi til þess að sérstök fánanefnd var skipuð til þess að útkljá fánamálið. Var meirihluti hennar hlynntur því að taka upp hvítbláin.

Kristján 10. Danakonungur lagðist hins vegar gegn þeirri hugmynd þar sem hann þótti of líkur fána gríska konungsins, sem einnig var þá notaður sem landfáni Grikklands. Lagði fánanefndin þá annars vegar til hönnun Matthíasar og hins vegar fána með ljósbláum krossi á hvítum feldi. Samþykkti konungur fyrri tillöguna og staðfesti með tilskipun sinni 19. júní 1915.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson