Þrengsli Agnes abbadís í herbergi sínu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.
Þrengsli Agnes abbadís í herbergi sínu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við stækkun Karmelklaustursins í Hafnarfirði í haust og verður verkið boðið út fljótlega. Nunnurnar hófu söfnun heima og erlendis fyrir um fjórum árum og gerðu kynningarmyndband, sem er á Youtube, til að vekja…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við stækkun Karmelklaustursins í Hafnarfirði í haust og verður verkið boðið út fljótlega. Nunnurnar hófu söfnun heima og erlendis fyrir um fjórum árum og gerðu kynningarmyndband, sem er á Youtube, til að vekja athygli á þörfinni, en enn vantar mikið upp í kostnað. „Það er svo dýrt að fara út í svona framkvæmdir á Íslandi,“ segir Agnes abbadís.

Á heimasíðu klaustursins (karmel.is) er saga þess rakin í stórum dráttum. Þar kemur fram að aðdragandann að stofnuninni megi rekja til ársins 1929, en 1937 fékkst leyfi til að byggja klaustrið og var fyrsta messan þar fyrir um 85 árum, 18. júlí 1940. Breskir og síðan bandarískir hermenn bjuggu í klaustrinu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og dvöldu systurnar í Bandaríkjunum lengst af á meðan. Að stríðinu loknu komu þær aftur til Íslands og fleiri bættust í hópinn. Þegar klaustrið var tilbúið til klausturlífs hófst innilokun nunnanna formlega 29. september 1947.

Búa í klaustrinu ævilangt

Fljótlega eftir að nunnurnar settust að í klaustrinu eftir stríðið opnuðu þær verslun með trúarlegum varningi og þar selja þær til dæmis handmáluð kerti og kort, minningar- og samúðargjafir, gestabækur, styttur, geisladiska með kristilegri tónlist og fleira. Í garðinum rækta þær grænmeti, kryddjurtir, kartöflur, blóm, runna og tré. Þær lifa látlausu lífi og Agnes bendir á að þær búi í klaustrinu ævilangt. „Við förum ekki á stofnun, þegar við eldumst, heldur þarf að sinna okkur innan klausturveggjanna.“

Sr. Agnes hefur búið og starfað í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði í 41 ár, en þar eru nú 14 systur, 13 frá Póllandi og ein frá Kanada. Hún rifjar upp að í upphafi hafi verið ráðgert að reisa klaustur til að fullnægja öllum þörfum systra til dánardags og teikning hafi legið fyrir en vegna fjárskorts hafi verið dregið verulega úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Herbergin séu því mjög lítil og engin aðstaða til að sinna öldruðum og veikum systrum. „Hjólastólar komast ekki inn í herbergin og ekki er rými fyrir breiðari rúm en 60 til 70 sentimetra,“ vekur Agnes athygli á. „Við viljum bæta við sex systraherbergjum sem munu þjóna öldruðum og sjúkum systrum.“ Þessi einnar hæðar bygging verði tengd við klaustrið með glergangi. „Allar lagnir í klaustrinu eru auk þess gamlar og úr sér gengnar og við þurfum að skipta um þær,“ heldur hún áfram, en systurnar sinna meðal annars viðhaldi innan húss og utan.

Þeir sem vilja leggja klaustrinu lið geta haft beint samband eða lagt inn á reikning þeirra (Karmelítaklaustur, kt. 6801694469, bankareikningur 0545-26-4348). „Margt smátt gerir eitt stórt,“ leggur Agnes áherslu á.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson