Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Í nýrri sálmabók þjóðkirkjunnar er boðið upp á þá nýjung að frumtexti við erlend lög sem þýdd hafa verið á íslensku er birtur með íslenska sálminum. Kristján Valur Ingólfsson sem átti sæti í sálmabókarnefnd segir að frá því árið 2005 hafi verið unnið að breytingu á íslensku sálmabókinni sem hafi lokið árið 2022.
Hvað réð því að settur var inn texti á arabísku í íslenska sálmabók?
„Árið 2010 var opnað stef til alheimskirkjunnar og árið 2013 var gefin út viðbót við sálmabókina og þá var þessi messusöngur með arabískum uppruna settur inn og ég ber ábyrgð á því. Það kom til af samvinnu við lúthersku kirkjuna í Palestínu. Biskup þeirrar kirkju kom í heimsókn til landsins nokkrum sinnum. Þá var ákveðið að taka þennan sálm upp, eða þetta vers, sem gert var af tónlistarstjóranum í Betlehem. Það var fyrsta skrefið í því að sýna samstöðu með kristnum Palestínumönnum, með því að birta textann á þeirra máli. Þetta er ekki sungið sem sálmur í venjulegum skilningi heldur er þetta tengt altarissakramenti.“
Útrétt hönd
Kristján Valur segir að eftir þetta hafi verið unnið áfram með að láta upprunatexta fylgja sálmunum.
„Við erum hluti af hinni stóru kirkju um allan heim og það er forsendan fyrir því að við gerðum þetta. Við erum að rétta út höndina til þeirra ekki eru fæddir á Íslandi en stunda trúarlíf hér. Ég held að enginn hafi haft áhyggjur af því árið 2010 að það gæti orðið vandamál að hafa sálm á arabísku í íslenskri sálmabók þar sem Guð er kallaður Allah á frummálinu. Það eru aðrir tímar í dag og mikið að gerast í heiminum sem gerir fólk viðkvæmara fyrir þessu en þá.“
Alls konar sjónarmið réðu ferð
Hversu mikið jók þessi breyting umfang sálmabókarinnar?
„Það er mjög óverulegt, þetta eru á bilinu 15-20 sálmar af 800 sálmum í bókinni.“
Hvað réð því hvaða sálmar voru valdir?
„Sálmabókarnefndin starfaði í mörg ár. Í flestum tilvikum komu fram tillögur um að tilteknir sálmar væru settir inn í sálmabókina bæði erlendir og íslenskir. Það eru alls konar sjónarmið uppi um það hvaða sálmur passi inn í sálmbókina,“ segir Kristján Valur Ingólfsson.