Hafliði Kristjánsson, íbúi í Kópavogi, telur kjörið að gera golfvöll á landinu fyrir ofan Austurkór. Hefur hann lagt á sig talsverða vinnu til að afla hugmyndinni fylgis. „Ég bý hérna efst í Austurkór með móa fyrir framan mig

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hafliði Kristjánsson, íbúi í Kópavogi, telur kjörið að gera golfvöll á landinu fyrir ofan Austurkór. Hefur hann lagt á sig talsverða vinnu til að afla hugmyndinni fylgis.

„Ég bý hérna efst í Austurkór með móa fyrir framan mig. Sól og norðanátt fer oft saman á höfuðborgarsvæðinu. Við þær aðstæður fýkur vindurinn einhvern veginn yfir og þá verður mjög hlýtt í garðinum hjá mér. Ég sat úti einn daginn og virti fyrir mér landið. Þá hugsaði ég með mér: Af hverju er ekki golfvöllur hér?“ lýsir Hafliði.

Ekki er óþekkt úti í heimi að einstaklingar fái hugmynd um að gera golfvöll, til dæmis landeigendur. Hér á Íslandi hefur það gerst í dreifbýlinu en að einstaklingur beiti sér fyrir því að láta gera golfvöll á höfuðborgarsvæðinu er heldur sjaldgæft. Yfirleitt eru það golfklúbbarnir sem fara í slíka vinnu og iðulega í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag. „Mér fannst landið vera upplagt fyrir golfvöll en vildi gjarnan komast að því hvort landið gæti rúmað 18 holu golfvöll. Ég fékk því Edwin Roald golfvallahönnuð til að svara því. Hann var hrifinn af landinu, umhverfinu og jarðveginum og teiknaði hann völlinn í framhaldinu.“

Kynnir hugmyndina víða

Ef Hafliði fær hugmynd sem honum þykir góð þá segist hann reyna að hrinda henni í framkvæmd. Hann segist hafa talað við mann og annan til að kynna hugmyndina.

„Ég hef kynnt málið fyrir fjölda manns í Garðabænum en Garðabær á landið. Til að mynda formönnum í golfklúbbunum á Álftanesi, í Setbergi og stjórninni í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Það leist öllum vel á þetta. Auk þess hef ég rætt við Almar Guðmundsson bæjarstjóra og Björgu Fenger formann skipulagsnefndar. Ég kynnti þetta auk þess fyrir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi þótt Garðabær eigi landið. Þá kynnti ég hugmyndina einnig á aðalfundi skóræktarfélags Garðabæjar,“ segir Hafliði en í framtíðarskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir atvinnusvæði þar sem Hafliði sér fyrir sér völlinn.

„Ég velti fyrir mér hvernig framtíðin lítur út hjá GKG því landið sem klúbburinn notar er að hluta til mýri. Hér í Austurkór er allt þurrt. Ég vil meina að mikill munur sé á veðurfarinu. Mig langar að gera þetta svæði fyrir ofan Austurkór að útivistarmóttöku fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem hægt væri að hjóla, hlaupa, ganga eða fara á gönguskíði. Þar hjálpar nálægðin við Heiðmörk einnig til.“

Fjórir golfvellir eru á landi sem tilheyrir Garðabæ. Þeir þrír sem Hafliði nefndi og Oddur. Biðlistar eru hjá flestum ef ekki öllum golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu. Hafliði segir það spila inn í þessar hugmyndir sínar en hann hefur sjálfur spilað golf um árabil. „Við hjónin vorum í mörg ár í Oddi en nenntum því ekki lengur því það var rosalegt mál að fá rástíma. Ég skil að sveitarfélagið sé ekki að velta fyrir sér að bæta við golfvelli en ég tel að þetta sé einstakt svæði sem eigi að nýta.“

Höf.: Kristján Jónsson