Forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar harmar að Þingeyringar upplifi að ekki sé hlustað á þá innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hún telur vilja og svigrúm til að gera betur fyrir hendi. Morgunblaðið greindi frá því í gær að Þingeyringar væru…

Forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar harmar að Þingeyringar upplifi að ekki sé hlustað á þá innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hún telur vilja og svigrúm til að gera betur fyrir hendi.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að Þingeyringar væru þreyttir og pirraðir á erfiðleikum við að fá áheyrn hjá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ og að hættulegar aðstæður hefðu skapast í vetur vegna ljóslauss vita í bænum sem íbúasamtökin á Þingeyri höfðu þegar varað við í ábendingu til bæjaryfirvalda í fundargerð sem ekki var brugðist við.

Steinunn Guðný Einarsdóttir tók við sem forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar fyrir um tveimur vikum en aðspurð segir hún að hún hafi frétt af umræðunni um ljóslausa vitann á íbúafundi í upphafi mánaðar en hún hafi nú kannað stöðu málsins sem er í vinnslu. Þá tekur hún fram að um sé að ræða mál á borði embættismanns í bænum.

Annars segist Steinunn skilja íbúa á Þingeyri vel. „Ég skil að ef fólk fær ekki viðbrögð upplifi það að það sé ekki verið að hlusta á það og það er mjög leiðinlegt að það sé þeirra upplifun. Ég bý á Flateyri þannig að ég þekki þetta báðum megin við borðið. Það er flókið að reka fjölkjarnasamfélög.“

Hún bætir þó við að allar fundargerðir séu lesnar af bæjaryfirvöldum en að um sé að ræða gífurlega mikið lesefni og því ekki hægt að muna eftir öllu sem þar kemur fram.

Spurð hvort umkvartanir íbúa Þingeyrar séu þó ekki tilefni til einhvers konar endurskoðunar á boðleiðum segir Steinunn að það sé alltaf vilji og svigrúm til þess að gera betur. Þá segir hún mikilvægt að taka samtalið við íbúa. „Ég veit að bæjarstjórinn hefur verið að fara á þessa minni staði til þess að taka spjallið,“ segir Steinunn og bætir við að kannski þurfi að endurskoða ferlið með fundargerðir innan bæjarins.