Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta fyrirkomulag er gargandi tímaskekkja,“ segir Arnar Sigurðsson, áfengiskaupmaður í Sante.
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur formlega tekið við kvörtun Arnars gegn íslenska ríkinu vegna einokunarréttar ÁTVR á heildsöludreifingu tóbaksvara. Í kvörtun Arnars er staðhæft að tóbakseinokunin sé ólögleg samkvæmt EES-löggjöf.
Í staðfestingarbréfi ESA, sem dagsett er 13. júní síðastliðinn, segir að stjórn innri markaðsmála stofnunarinnar muni annast málsmeðferðina og gæti leitað eftir frekari upplýsingum frá kvartanda. ESA stefnir að því að taka ákvörðun um efni málsins innan árs frá skráningu.
Arnar segir í samtali við Morgunblaðið að einokunarréttur ÁTVR á heildsöludreifingu tóbaks hafi lengi verið umdeildur og talinn brjóta í bága við stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi. Kveðst hann telja að þó Ísland hafi bókað viðauka við EES-samninginn um rétt ríkisins til einokunarreksturs á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks séu vaxandi efasemdir um hvort slík úrræði séu raunverulega réttlætanleg.
„Á meðan rök fyrir einokun á smásölu áfengis kunna að eiga einhverja stoð í lýðheilsusjónarmiðum er erfitt að finna sannfærandi rök fyrir einokun á heildsölu tóbaksvara. Slík einokun takmarkar samkeppni á óeðlilegan hátt án þess að þjóna neinum raunverulegum almannahagsmunum,“ segir kaupmaðurinn.
„Af hverju er ríkið að reka heildverslun fyrir einhverjar neysluvörur? Það eru heildsalar sem flytja inn lyf, matvöru, byssur og fleira. Af hverju er ríkið með heildsölu á tóbaki? Er það vegna þess að ríkið sé svo ábyrgur aðili, flinkur og hagkvæmur? Eða á sala tóbaks að hafa samlegðaráhrif með áfengi? Svarið við þessu öllu er vitaskuld nei. Það er auðvitað út í hött að ríkisstarfsmenn séu að burrast um á lyftara uppi á höfða. Svo koma trukkar frá Festi, Högum og fleirum og sækja tóbakið.“
Arnar segir jafnframt að kvörtunin veki spurningar um mögulega skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins gagnvart þeim smásöluaðilum sem hafi í áratugi verið neyddir til að kaupa tóbaksvörur á einokunarverði frá ÁTVR. Hann telur að ef ESA kemst að þeirri niðurstöðu að brot hafi átt sér stað gæti málið endað fyrir EFTA-dómstólnum sem gæti falið íslenska ríkinu að breyta fyrirkomulaginu.
Kaupmaðurinn segir að sjá megi af lestri ársreikninga ÁTVR að allur hagnaður stofnunarinnar komi frá heildsölu tóbaks. Ekki er þó að finna neina sundurliðun í þessum reikningum.
„Af hverju fáum við ekki að vita hvað ríkið er að hafa upp úr heildsölu tóbaks og smásölu áfengis? Ástæðan er væntanlega sú að ÁTVR notar hagnaðinn af tóbakssölu til að niðurgreiða Vínbúðina, sem er nokkuð augljóst brot á markaðsráðandi stöðu.“