Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Liðssafnaðar er nú leitað í Skálholt þar sem til stendur um næstu helgi að flytja stórt bókasafn úr turni dómkirkjunnar þar yfir í nálæga byggingu. „Bókasafnið er einstakt og aldrei hefur annað staðið til en að það væri öllum aðgengilegt, enda þótt slíkt hafi dregist í áratugi,“ segir sr. Kristján Björnsson vígslubiskup. Allir sem vettlingi geta valdið mega mæta í Skálholti sunnudaginn 22. júní kl. 16:30, þar sem handlanga þarf út safnið sem nú er komið í 250 pappakassa.
Þjóðkirkjan keypti safn Þorsteins sýslumanns
„Já, í svona verkefni þarf litla og hentuga kassa sem þægilegt er að halda á. Við keyptum þá í bunkum og nokkra fékk ég í Vínbúðinni á Flúðum. Kassar utan af áfengisflöskum eru góðir fyrir bækur,“ segir vígslubiskupinn og hlær. Áætlað er að bókaburðurinn taki um klukkustund og að launum fá þau sem þátt taka kaffi og kleinur.
Í biskupssetrinu er sagan sú að þangað var árið 1965 keypt stórt bókasafn, sem var upphaflega í eigu Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns í Búðardal. Síðar eignaðist svo safnið Kári Borgfjörð Helgason kaupmaður í Reykjavík. Árið 1965 kaus hann svo að láta það frá sér og seldi þjóðkirkjunni fyrir háa upphæð. Tveimur árum síðar, árið 1967, var svo farið með safnið austur í Skálholt og því þá komið fyrir á tveimur hæðum í kirkjuturninum. Slíkt var alltaf hugsað sem ráðstöfun til bráðabirgða.
Fágætið í glerskápa
Í bókasafnið eru frá jarðhæð 170 tröppur og skref og fara þarf um þrennar rammgerðar dyr. Fyrst er prílað upp þrönga stiga og svo arkað yfir langa brú undir þakrjáfri kirkjuskipsins. Svo er tekinn einn stiginn enn og inn í turn kirkjunnar og þar er safnið. Merkustu bækurnar þarna hafa verið í eldtraustum stálskápum en aðrar í hefðbundnum hillum.
Kassarnir verða bornir úr kirkjunni yfir í svonefnda Gestastofu, byggingu á heimahlaðinu sem áður var bústaður sóknarprests, rektors og seinna vígslubiskups. Þar á jarðhæð verður safnið og búið er að setja upp hillur fyrir safnkostinn. Mesta fágætið fer hins vegar í glerskápa, sem áður voru í Árnagarði í Reykjavík.
Safnið verður gert gestum aðgengilegt
Skálholtsstaður og viðreisn hans var áherslumál í biskupstíð Sigurbjörns Einarssonar sem tók við embætti árið 1959. Dómkirkjan í Skálholti var vígð 1963 og starfsemi lýðháskóla að norrænni fyrirmynd var síðar sett á fót. Með þessu stóð til að Skállholt yrði alhliða mennta- og menningarsetur og í því samhengi þótti nauðsynlegt að bókakostur á staðnum væri góður. Síðan þetta var, fyrir um 60 árum, hefur margt gerst og viðhorf breyst. Skólastarf er löngu aflagt og á tímum nets og upplýsingaveitna er þörf á bókasafni önnur en var.
Í Skáholtskirkju fer nú um stundir fram margvíslegt helgihald og öflugt tónlistarstarf og hundruð ferðamanna sækja staðinn heim á degi hverjum yfir sumarið. Því þykir ekki úr vegi að bókasafnið verði aðgengilegt, til dæmis fræðimönnum og öðrum. Sú er ætlun og áherslumál þeirra sem nú ráða málum á biskupssetrinu; staðnum sem er sögusvið margs þess markverðasta sem gerðist á Íslandi fyrr á tíð.
10.000 bækur og 4.000 bindi tímarita
En hver er safnkosturinn? Segja má að þarna sé flest hið markverðasta sem út kom á Íslandi frá upphafi prentlistar á Ísland og fram undir 1960. Þarna má nefna bækur til dæmis frá Hólum, úr Hrappsey og frá Leirá; en á þessum stöðum stóð vagga íslenskrar prentlistar. Sé litið til einstakra rita má nefna Guðbrandsbiblíu frá 1584, Þorláksbiblíu frá 1644 og Steinsbiblíu frá Hólum sem kom út snemma á 18. öld. Einnig er í safninu fjöldi annara kirkjurita, svo sem fyrsta útgáfa Passíusálmanna frá 1666, Grallarinn í ýmsum útgáfum og guðsorðabækur. Einnig fyrsta prentun af Landnámu og Kristnisögu 1688 sem prentuð var í Skálholti.
Talið er að í safninu séu um 10 þúsund bækur og minnst 4.000 bindi tímarita. Einnig er svo í Skálholt komið og varðveitt í Geststofunni safn bóka úr eigu Sigurbjörns Einarssonar biskups og Magneu Þorkelsdóttir konu hans. Þar er ekki síður margt fágæti að finna, en þá ber að taka fram að söfn Þorsteins sýslumanns og Sigurbjörns urðu til að mestu sitt á hvorum tíma og eru því um margt ólík, sem gerir heildina því mjög dýrmæta. Þess má geta að nokkrir af dýrgripum safnsins verða innlegg í sýningu Prentsöguseturs Íslands sem líka verður í Gestastofunni.