Lækningar Sérnám í sjúkrahúsgreinum fer að mestu fram á Landspítalanum.
Lækningar Sérnám í sjúkrahúsgreinum fer að mestu fram á Landspítalanum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gríðarleg fjölgun hefur orðið á læknum sem stunda sérnám á Íslandi á undanförnum árum samhliða auknu sérnámsframboði á Íslandi. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins

Valgerður Birna Magnúsdóttir

vala@mbl.is

Gríðarleg fjölgun hefur orðið á læknum sem stunda sérnám á Íslandi á undanförnum árum samhliða auknu sérnámsframboði á Íslandi. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

„Í dag eru um 300 sérnámslæknar í námi innanlands, þar af um 100 í heimilislækningum sem eru fjölmennasta sérnámsgreinin,“ segir í svarinu. Til samanburðar hafi sérnámslæknar í heimilislækningum einungis verið 37 árið 2017.

Sérnám lækna á Íslandi hófst árið 1995 með námi í heimilislækningum, fyrst og fremst til að bregðast við fyrirséðum skorti á heimilislæknum. „Upphaflega var aðeins boðið upp á fyrstu ár sérnámsins hér á landi, en ljúka þurfti því erlendis. Þessi aðferð hefur verið notuð í fleiri sérgreinum, þar sem hluti náms var í boði hér og síðan þróaðist það áfram í fullt sérnám með tímanum,“ segir í svarinu.

Sérnámsgreinum fjölgar

Í svari ráðuneytisins segir að árið 2020 hafi verið boðið upp á fullt fimm ára sérnám í fjórum greinum: heimilislækningum, geðlækningum, barna- og unglingageðlækningum og bráðalækningum, en frá og með árinu 2025 er boðið upp á fullt sérnám í fjórum greinum til viðbótar. Þær eru lyflækningar, endurhæfingarlækningar; háls-, nef- og eyrnalækningar; og innkirtlalækningar, en lyflækningar buðust áður sem hlutasérnám. Læknanemum býðst þannig að sérhæfa sig í átta greinum hérlendis, og hefur framboð á fullu sérnámi því tvöfaldast á fimm árum.

Í dag er hlutasérnám, yfirleitt í tvö ár af fimm, í boði í átta greinum: almennum skurðlækningum, meinafræði, réttarlæknisfræði, barnalækningum, fæðinga- og kvensjúkdómalækningum, myndgreiningu, svæfinga- og gjörgæslulækningum og taugalækningum.

Í svarinu segir að þetta endurspegli markvissa uppbyggingu og framþróun í sérnámi lækna hér á landi á undanförnum árum með það að markmiði að efla heilbrigðisþjónustuna um land allt.

Í svarinu segir að stofnun mats- og hæfisnefndar um sérnám lækna hafi gegnt lykilhlutverki í þeirri þróun að fjöldi viðurkenndra sérnámsstaða hafi aukist ár frá ári.

„Sérnám í sjúkrahúsgreinum fer að meginhluta fram á Landspítala, en einnig er hægt að taka hluta þess annars staðar, svo sem á Sjúkrahúsinu á Akureyri, Reykjalundi, Handlæknastöðinni og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.“

Ráðuneytið segir ýmislegt í undirbúningi varðandi áframhaldandi þróun og mögulega aukningu á framboði sérnáms hér á landi, en að enn eigi eftir að koma í ljós hvort sérgreinar eigi eftir að bætast við í náinni framtíð, og þá hvaða sérgreinar það kynnu að vera.

„Það má segja að það hlutasérnám sem nú þegar er í boði veiti ákveðnar vísbendingar um mögulega þróun til framtíðar, ef litið er til þess hvernig sérnám hefur þróast hingað til – úr hlutasérnámi í fullt sérnám.“ Þróunin muni þó ráðast af faglegu mati og gæðaúttektum hverju sinni.

Samkvæmt reglugerð nr. 856/2023 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi er embætti landlæknis heimilt að veita sérfræðileyfi í alls 39 sérnámslækningargreinum. Þar að auki er embættinu heimilt að veita sérfræðileyfi í fjórtán lækningarrannsóknargreinum, til að mynda veirufræði og blóðmeinafræði.

Mikilvægt fyrir þjóðaröryggi

Í svari ráðuneytisins segir að menntun erlendis hafi lengi gegnt lykilhlutverki í sérnámi lækna. Engin töluleg gögn liggi fyrir um það hversu margir íslenskir læknar sæki sér sérnám erlendis, en ljóst sé þó að fjölmargir sérfræðilæknar sem starfi hér á landi hafi lokið sérnámi erlendis – bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar. „Sem stendur er í gangi verkefni í starfshópi á vegum heilbrigðisráðherra þar sem unnið er að kortlagningu á íslenskum sérfræðideildum erlendis. Markmiðið er m.a. að fá betri yfirsýn yfir hvar íslenskir læknar sækja sér sérnám og hvert þeir fara að námi loknu. Við vitum þó þegar að margir íslenskir sérfræðilæknar og sérnámslæknar starfa í Svíþjóð, auk þess sem hópar eru í Noregi og Danmörku.“ Niðurstöður þessarar greiningar verði mikilvægar fyrir áframhaldandi stefnumótun. Í svari ráðuneytisins segir að aukið framboð á sérnámi hafi haft víðtæk og jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið á Íslandi. Til að mynda hafi það dregið úr brottfluttningi lækna og aukið líkur á því að læknar haldi áfram að starfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins til lengri tíma.

„Sérnámslæknar eru í dag orðnir mikilvægur hluti af daglegu starfi heilbrigðisstofnana og gegna lykilhlutverki í veitingu heilbrigðisþjónustu. Þeir koma einnig með ferska sýn, stuðla að öflugu námsumhverfi, rannsóknum og framþróun og efla þannig starfsumhverfið í kerfinu, á sama tíma og þeir læra af reyndum sérfræðingum og vaxa í hlutverki sínu með tímanum.“
Það hafi mikilvæga þýðingu fyrir þjóðaröryggi og sjálfbærni að heilbrigðiskerfið sé síður háð því að íslenskir læknar fái tækifæri til sérnáms erlendis – það sé ekki sjálfgefið til framtíðar. „Við höfum þannig tekið stórt skref í átt að því að byggja upp öflugt, sjálfbært og framtíðarþolið heilbrigðiskerfi þar sem læknar geta bæði lært og starfað í eigin landi.“

Framboð fulls sérnáms á Íslandi tvöfaldast

Höf.: Valgerður Birna Magnúsdóttir