Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Talsvert var karpað á þingi í gær, framan af þó minnst um efni þeirra mála, sem á dagskrá voru, en fyrst og fremst um margvísleg pólitísk álitaefni önnur, sum hver framhald af fyrri umræðu. Síðdegis klukkan þrjú hófst hins vegar 2. umræða um veiðigjaldafrumvarpið svonefnda og þá mættust stálin stinn.
Veiðigjaldaumræðan hófst á því að Eiríkur Björn Björgvinsson (C) mælti fyrir áliti meirihluta atvinnuveganefndar, en óverulegar breytingar á frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson eru lagðar til, utan leiðréttingar á útreikningum á upphæðum veiðigjalda, sem fram komu í greinargerð ráðherra, í framhaldi af gagnrýni sérfræðinga Skattsins. Eins var tekið tillit til gagnrýni á að makrílverð í Noregi væri í litlu samræmi við aflaverðmæti þess makríls, sem íslensk skip veiða. Leggur meirihlutinn því til að miðað verði við 80% norska verðsins.
Minnihlutinn lagði fram tvö álit, en Jón Gunnarsson, framsögumaður 1. álits minnihluta nefndarinnar, nefndi að vinnu atvinnuveganefndar hefði verið ábótavant, málið verið keyrt í gegn og ýmsum óskum um gestakomur þeirra, sem orðið hefðu við umsagnarbeiðnum nefndarinnar, hafnað. Eins gagnrýndi hann að sérfræðingar Skattsins hefðu ekki komið fyrir nefndina, þrátt fyrir að þeir hefðu þurft að gera leiðréttingar við greinargerð með frumvarpinu.
Hart deilt á upplýsingaskort
Þetta mál hafði raunar komið til umræðu í umræðum um fundarstjórn forseta í upphafi þingfundar í gærmorgun, en þar báðu stjórnarandstöðuþingmenn Þórunni Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis um að hlutast til um að alþingismenn fengju í hendur gögn um samskipti ráðuneyta við Skattinn varðandi hækkun veiðigjalda, í von um að vinda ofan af „upplýsingaóreiðu“ Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Upplýsingar og útreikningar á norsku verði uppsjávarafla væru undir sömu sök seld.
Minnt var á að ráðuneyti og undirstofnanir þeirra hefðu ekki aðeins skyldur gagnvart ráðherra eða stjórnarmeirihlutanum, heldur hefðu þau trúnaðar- og upplýsingaskyldu gagnvart öllum nefndarmönnum viðkomandi nefnda og raunar þinginu öllu, því hver þingmaður ætti að geta glöggvað sig á störfum allra nefnda, óháð því hvort þeir sætu í henni eða ekki.
Þar kann einnig að skipta máli að upplýsingaskylda ráðherra eða undirstofnana ráðuneyta er skv. formreglum við hverja þingnefnd í heild, en ekki við meirihluta eða minnihluta.