Það var undarleg stemming á Alþingi síðastliðinn sunnudag, þegar þingfundur var haldinn á hvíldardeginum í fyrsta skipti án þess að neyð steðjaði að.
Skipulagsleysi stjórnarliða hefur nú skilað þingstörfunum á þann stað að viku eftir áætluð þinglok á enn eftir að taka risastór mál út úr nefndum þingsins og svo er öll umræða um þau eftir.
Mál sem eiga meginþunga umræðu í þingsal eftir eru smámál eins og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, fyrsta fjármálaáætlun stjórnarinnar, breyting á reglum um kílómetragjald, lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar sem ætlunin er að lögþvinga sveitarfélög sem hingað til hafa ákveðið að hafa útsvar ekki í hæstu hæðum til þess arna. Vísitölubinding örorkulífeyris er órædd við aðra umræðu, Bókun 35 er ókláruð, strandveiðarnar sömuleiðis, niðurlagning embætta sýslumanna á landsbyggðinni, breyting á reglum um styrki til fjölmiðla. Hundar og kettir. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks, að ógleymdum veiðigjöldunum. Allt er þetta óklárað, viku eftir áætluð þinglok.
Þetta er verkstjórnin mikla.
Sú undarlega afstaða hefur heyrst á síðustu dögum, eftir sneypuför stjórnarliða síðasta sunnudag, að þingfundurinn hafi þrátt fyrir allt haft jákvæð áhrif.
Þessu furðulegi þingfundur, sem skilaði fáum ræðum í bókun 35, sem þó var eina málið á dagskrá, hafi orðið einhverslags hreyfiafl til að ýta samningaviðræðum um þinglok aftur af stað á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Nú eru þær viðræður auðvitað undirorpnar trúnaði en ég treysti mér til að fullyrða að sunnudagsfundurinn gerði samanlagt ekkert gagn í þeim efnum, heldur þvert á móti.
Vafalaust líður stjórnarliðum illa með þetta taugaveiklunarútspil sitt, sérstaklega þegar eftirtekjan varð nær engin, en þeim væri auðvitað hollast að gangast við því að þarna hafi þeir farið illa út af sporinu og halda svo áfram í átt að því að nálgast þinglokasamninga með skynsamlegum hætti.
Það er nefnilega þannig að allt sem gerist í þinginu hefur afleiðingar, sumt færir hluti til betri vegar, annað ekki.
Virðingarleysi fyrir venjum og hefðum, sem vafalaust þykir hipp og kúl hjá sumum, er ekki vísasti vegurinn til að leiða þingstörf til farsællar niðurstöðu á þessu fyrsta þingi nýrrar ríkisstjórnar.
Telji stjórnarliðar það vera raunina, þá erum við á verri stað en ég áður taldi.
Sá á kvölina sem á völina.
Stjórnarliðar með valkyrjurnar í forystu horfa nú fram á að metnaður þeirra við framlagningu mála, sem var í raun algerlega óraunhæfur, á þingi sem hófst í febrúar en ekki í september, eins og þau gera flest, er nú orðinn þeim fjötur um fót.
Enn er tækifæri til að hnýta þessa hnúta saman með forsvaranlegum hætti, en sá gluggi lokast hratt á næstu dögum.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is