Balí Fjöldi ferðamanna kemst hvorki til né frá Balí vegna eldgoss.
Balí Fjöldi ferðamanna kemst hvorki til né frá Balí vegna eldgoss. — AFP/Sonny Tumbelaka
Fjölda flugferða til og frá indónesísku eyjunni Balí var aflýst í gær vegna eldgoss í Lewotobi Laki-Laki-fjalli, sem er í austurhluta eyjaklasa Indónesíu. Eldgosið hófst á þriðjudag og var efsta viðbragðsstig almannavarna Indónesíu virkjað í kjölfarið

Fjölda flugferða til og frá indónesísku eyjunni Balí var aflýst í gær vegna eldgoss í Lewotobi Laki-Laki-fjalli, sem er í austurhluta eyjaklasa Indónesíu. Eldgosið hófst á þriðjudag og var efsta viðbragðsstig almannavarna Indónesíu virkjað í kjölfarið.

Á meðal þeirra flugfélaga sem fella þurfa niður ferðir, eða seinka þeim verulega, eru Air India, Air New Zealand, Tiger Air, Juneyao Arlines, Air Asia og Jetstar.

Alls voru 32 flugferðir á áætlun frá Balí í gær og var þeim öllum seinkað eða þær felldar niður.

Í heildina hefur röskun á flugi áhrif á um 14 þúsund manns, enda eyjan Balí gríðarlega vinsæll ferðamannastaður.

Öskufall og skjálftar

Mikið öskufall hefur orðið í kjölfar eldgossins og hefur ösku rignt yfir nokkur þorp umhverfis eldfjallið. Þurftu íbúar að yfirgefa heimili sín í að minnsta kosti einu þorpi í grenndinni. Enn mátti finna jarðskjálfta í grennd við eldfjallið í gærmorgun.

Að minnsta kosti 450 fjölskyldur hafa þurft að leita skjóls tímabundið í fjöldahjálparstöð með rafmagni og hreinu drykkjarvatni.

Jarðfræðistofnun Indónesíu hefur varað við því að íbúar og ferðamenn leggi leið sína að eldfjallinu. Þá hefur verið varað við leðju- eða aurflóðum á svæðinu, sérstaklega ef mikil úrkoma verður á svæðinu.

Lewotobi Laki-Laki er mjög virkt eldfjall og gaus síðast í nóvember. Þá létust níu manns.

Þá, eins og nú, þurfti að aflýsa og seinka fjölda flugferða til og frá Balí og fleiri ferðamannastöðum á svæðinu. Þurftu þúsundir manna að rýma heimili sín. sonja@mbl.is