Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Smiðir og hermenn frá Norður-Kóreu munu aðstoða við enduruppbyggingu eftir stríðsátök í Kúrsk-héraði í Rússlandi. Munu yfir fimm þúsund smiðir og hermenn verða sendir til landsins auk þúsund manna herliðs sem sér um að grafa upp og aftengja jarðsprengjur.
Sergei Shoígú, ritari þjóðaröryggisráðs Rússlands, var nýverið í Pjongjang til viðræðna við Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu. Eitt ár er síðan ríkin tvö gerðu með sér hernaðarsamning.
Hermenn og vopn
Norður-Kórea hefur verið einn helsti bandamaður Rússa í innrásarstríði þeirra í Úkraínu og hefur sent fjölda hermanna til Rússlands til þess að berjast í stríðinu auk vopna.
Um 600 norðurkóreskir hermenn hafa látist í stríðinu og þúsundir hafa særst, að því er suðurkóreski þingmaðurinn Lee Seong-kweun greinir frá og vísar þar til upplýsinga sem leyniþjónusta Suður-Kóreu hefur undir höndum.
Stjórnvöld í Pjongjang staðfestu fyrst í apríl á þessu ári að þau hefðu sent hermenn til að styðja við aðgerðir Rússa í stríðinu gegn Úkraínu og staðfestu að hermenn hefðu látist í bardaga.
Þetta er önnur heimsókn Shoígús til Pjongjang á einum mánuði. Þeir Kim ræddu samvinnu ríkjanna í þessari heimsókn og einnig frekari samvinnu í framtíðinni.
Utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu er lítt hrifið af samvinnu Norður-Kóreu og Rússlands og segir hana brjóta gegn ályktunum þjóðaröryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.