Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Þegar Angelika Stibi fékk afhenta lykla að íbúð í suðurhluta Bæjaralands í Þýskalandi var þungu fargi af henni létt. Hún þarf aðeins að greiða 88 evrusent, jafnvirði tæpra 126 króna, á ári fyrir íbúðina, sem er í félagslegu húsnæði á svæði sem nefnt er Fuggerei en leigan þar hefur verið óbreytt frá sextándu öld.
Kaupsýslumaðurinn Jakob Fugger stofnaði þennan félagslega húsnæðiskjarna árið 1521 í borginni Augsburg og þar búa um 150 einstaklingar sem eiga kröpp kjör. Svæðið líkist miðaldaþorpi; húsin eru gul með grænum gluggahlerum og hallandi rauðum þökum.
„Ég hafði það mjög gott þangað til ég varð 55 ára,” segir Stibi, sem er tveggja barna móðir á sjötugsaldri. Hún greindist með krabbamein og segir að eftir það hafi allt farið á verri veg og hún neyddist til að sækja um félagslegt húsnæði.
Löng bið er eftir íbúðum í Fuggerei, sem er skammt frá miðborg Augsburg. Doris Herzog, starfsmaður félagsþjónustu borgarinnar segir við AFP-fréttastofuna að biðin sé venjulega frá tveimur til sjö ára eftir því hvernig íbúðum óskað sé eftir. Íbúðirnar á jarðhæð séu eftirsóttastar. Umsækjendur þurfa að sýna fram á að þeir séu búsettir í Augsburg, séu kaþólskir og illa settir fjárhagslega.
Martha Jesse, sem er 77 ára, hefur búið í Fuggerei í 17 ár. Hún segir að þótt hún hafi unnið í 45 ár hafi eftirlaun hennar aðeins numið um 400 evrum á mánuði, jafnvirði um 57 þúsund króna.
„Ég hefði hvergi getað búið annars staðar,“ segir Jesse við AFP.
Andreas Tervooren, 49 ára gamall næturvörður, hefur búið á Fuggerei-svæðinu frá árinu 2017. Hann segir að svæðið sé eins og bær inni í miðri borg og minni á þorp teiknimyndasöguhetjunnar Ástríks.
Fuggerei-svæðið skemmdist mikið í síðari heimsstyrjöldinni en hefur síðan verið endurbyggt í upprunalegri mynd. Franz Mozart, afi tónskáldsins Wolfgangs Amadeus Mozarts, bjó um tíma á svæðinu og þar er enn skjöldur með nafni hans.
Leiga hefur hækkað mikið víða í Þýskalandi á síðustu árum og því stingur lág leigan í Fuggerei verulega í stúf. Svæðið er ekki langt frá München, sem er dýrasta borg í Þýskalandi og ein sú dýrasta í Evrópu. Í upphafi var árleg leiga fyrir íbúð eitt rínargyllini, sem þá jafngilti vikulaunum iðnaðarmanns og stofnendur Fuggerei mæltu fyrir um að leigan skyldi aldrei hækkuð.
Jakob Fugger (1459-1525), sem nefndur var Jakob ríki, var auðugur kaupsýslumaður og fjölskylda hans hafði tengsl við evrópska keisara og voldugar ættir. Fugger kom á fót nokkrum stofnunum til að styðja við íbúa í Augsburg og þessar stofnanir eru enn starfandi og standa straum af kostnaði við viðhald og rekstur Fuggerei-svæðisins.
Þótt sumir afkomendur Fugger-fjölskyldunnar stýri enn stofnunum sem Fugger kom á fót leggja þeir sjálfir ekki lengur fé til svæðisins. „Við höfum einkum tekjur af skógum og einnig rekum við lítið ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Daniel Hobohm, framkvæmdastjóri Fugger-stofnananna við AFP. Margir ferðamenn leggja leið sína til Fuggerei og stofnanirnar hafa einnig leigutekjur af öðrum eignum.
Íbúarnir í Fuggerei þurfa aðeins að uppfylla eitt skilyrði, eftir að þeir hafa fengið úthlutað þar íbúð. Á hverjum degi þurfa þeir að biðja fyrir velgjörðamönnum sínum og fjölskyldum þeirra.