Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Harðar athugasemdir hafa borist Reykjavíkurborg vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar við Birkimel 1. Um er að ræða lóð þar sem nú er bensínstöð, en nú liggja fyrir áform um að reisa þar 4-5 hæða fjölbýlishús með 42 íbúðum.
Í umsögnum í Skipulagsgátt gagnrýna íbúar og húsfélög skort á samráði, skerðingu á birtu, ásýnd og götumynd, sem og áhrif á gróður, útsýni og bílastæðamál.
Horfið frá heildarsýn
Morgunblaðið fjallaði í síðustu viku um sameiginlega umsögn stjórnenda Háskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar og Félagsstofnunar stúdenta, þar sem þeir lýsa eindreginni andstöðu við breytinguna. Í umsögninni kemur fram að svæðið sé hluti af samþykktri þróunaráætlun Háskólans sem unnin hafi verið í samstarfi við borgina og erlenda ráðgjafa og samþykkt í desember 2024. Þar sé svæðinu vestan Suðurgötu ætlað hlutverk framtíðarmiðju mennta- og menningarstarfsemi.
Stofnanirnar segja að með fyrirliggjandi tillögu sé horfið frá þessari heildarsýn og að nýja byggingin verði sem „aðskotahlutur“ sem samræmist hvorki umhverfi sínu né þeirri götumynd sem svæðið byggist á. Þær gagnrýna jafnframt að aðeins sé gert ráð fyrir sex almennum bílastæðum fyrir 42 íbúðir, sem muni leiða til þess að nýir íbúar leggi í stæði stofnana í grenndinni. Í lokaorðum umsagnarinnar segja stjórnendurnir: „Við leggjum því eindregið til að horfið verði frá því skipulagsslysi sem tillagan felur í sér.“
Þétting án samráðs
Fjölmargir íbúar hafa sent inn athugasemdir þar sem gagnrýnt er að hverfis- eða rammaskipulag liggi ekki fyrir. Íbúar við Birkimel 8 skora á borgina að endurskoða málið í heild sinni og fagna aðeins uppbyggingu sem samræmist staðaranda og þróunaráætlun Háskólans. Þeir segja að fyrirhuguð háreist bygging með áherslu á lúxusíbúðir í stað mennta- og menningarstofnana sé óásættanleg notkun á svæðinu.
Þeir telja jafnframt að byggingin muni skerða verulega lífsgæði – draga úr birtu, útsýni og friðhelgi einkalífs, og valda skuggavarpi yfir gróin tré á nærliggjandi lóðum. Þá telja þeir að nýtingarhlutfall og hæð byggingarinnar fari í bága við ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur um rótgróin hverfi. Sérstaklega er gagnrýnt að ekki hafi verið leitað samráðs við íbúa fyrr en eftir að tillagan hafi verið formlega auglýst.
Skuggavarp, gróður og verðrýrnun
Í umsögnunum er lögð sérstök áhersla á áhrif fyrirhugaðrar byggingar á skuggavarp yfir nærliggjandi lóðir. Fram kemur að há bygging, alveg við götumörk, muni varpa skugga á glugga og svalir í fjölbýlishúsum við Birkimel 8 og 10 yfir vetrarmánuðina, þegar dagsbirta gæti skemmst. Íbúar krefjast þess að byggingin verði lækkuð um að minnsta kosti tvær hæðir og færð fjær götu til að draga úr áhrifum.
Þá er áhyggjum lýst yfir mögulegri rýrnun fasteignaverðs og skertri nýtingu lóða í grennd, bæði vegna birtuskerðingar og þess að fyrirhuguð íbúðagerð – stórar lúxuseiningar – sé ekki í samræmi við raunverulega húsnæðisþörf. Einnig er bent á að byggingin muni hafa áhrif á útsýni í átt til Öskjuhlíðar og skerða ásýnd svæðisins, einkum séð frá vestanverðum Birkimel.
Skortur á bílastæðum
Bílastæðamál eru á meðal þeirra þátta sem mestar áhyggjur eru uppi um. Íbúar telja útilokað að aðeins sex stæði muni nægja fyrir 42 íbúðir og benda á að bílastæðaskortur sé nú þegar vandamál í hverfinu. Þá séu fjölmargar stofnanir á svæðinu, þar með talin Þjóðarbókhlaðan og Saga, sem þegar reiða sig á nærliggjandi bílastæði. Þeir vara við því að nýir íbúar muni leggja á einkastæðum eða í götum sem þegar séu undir miklu álagi.
Ógegnsætt ferli
Örn Þór Halldórsson, arkitekt og íbúi við Grenimel, segir í umsögn sinni að ferlið beri merki um að vera unnið gegn betri vitund og að skipulagsyfirvöld beiti „lögfræðiklækjum“ til að forðast gegnsæja umræðu. Hann mótmælir fyrirhuguðu skuggavarpi harðlega og telur að með byggingunni sé verið að brjóta upp sjónás og borgarheild sem einkennir þennan hluta Vesturbæjar.
Örn Þór leggur til að hafin verði vinna við heildstæða hverfisskipulagningu með aðkomu fagfólks og íbúa, og að farið verði aftur til upphafs ef borgin hyggist raunverulega taka skipulag svæðisins alvarlega.
Almenningur getur kynnt sér tillöguna á skipulagsgatt.is. Athugasemdafrestur er til 22. júlí.