[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Haraldur Jónasson fæddist 1. apríl 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 6. júní 2025.

Foreldrar hans voru Jónas Einarsson, f. 25.6. 1924, d. 19.8. 1995, og Guðbjörg Haraldsdóttir, f. 26.3. 1927, d. 21.9. 2017. Haraldur ólst upp á Borðeyri við Hrútafjörð þar sem faðir hans var kaupfélagsstjóri. Systkini Haraldar eru Aðalsteinn Þorkelsson, f. 26.1. 1955, d. 22.11. 2024, Guðlaug Jónasdóttir, f. 31.5. 1958, Þórey Jónasdóttir, f. 9.5. 1961, og Silja Jónasdóttir, f. 1.4. 1972.

Þann 29.12. 2000 giftist Haraldur Helgu Gísladóttur, f. 19.5. 1957. Foreldrar hennar voru Gísli Jónsson, f. 9.1. 1926, d. 7.9. 1994, og Svanhildur Jóhanna Kristjánsdóttir, f. 20.5. 1933, d. 2.5. 2015. Systkini Helgu eru Kristján Þormar Gíslason, f. 22.8. 1955, Inga Jóna Gísladóttir, f. 19.4. 1958, Magnús Kristjánsson, f. 13.6. 1959, og Unnar Laxdal Gíslason, f. 19.12. 1973.

Dóttir Haraldar og Helgu er Stella Tong Haraldsdóttir, f. 22.5. 2001.

Haraldur gekk í barnaskólann á Borðeyri og héraðsskólann að Reykjum. Hann lærði rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og í framhaldinu tæknifræði við tækniháskólann í Árósum í Danmörku. Á skólaárum vann hann við ýmis störf eins og við skógrækt í Norðurárdal og hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Hann starfaði hjá fyrirtækinu Traust og síðar hjá Marel. Árið 2003 hóf hann störf hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og vann þar til ársins 2024 þegar hann fór á eftirlaun.

Útför Haraldar verður frá Fossvogskirkju í dag, 19. júní 2025, klukkan 13.

Mér finnst erfitt að sitja hér og skrifa minningargrein um þig, elsku pabbi. Ég vildi að ég hefði fengið meiri tíma með þér en við fáum engu um það ráðið. Mig langaði bara að segja frá hversu góður pabbi þú varst. Þið mamma gáfuð mér besta líf sem lítil stelpa hefði getað ímyndað sér. Þú stóðst þig svo vel í föðurhlutverkinu, þú sýndir mér stuðning og hvattir mig alltaf áfram. Þú varst alltaf svo hjálpsamur og gerðir allt fyrir stelpuna þína. Ég gat alltaf leitað til þín, það var svo gott að tala við þig því þú varst alltaf svo rólegur, sem smitaði út frá sér til mín. Þú varst alltaf svo duglegur að lesa fyrir mig fyrir svefninn og gerðir það í mörg ár. Þú varst mikill fjölskyldumaður og í æsku man ég hvað þú lagðir mikla áherslu á samveru okkar, ég man öll ferðalögin, innanlands og erlendis, veiðiferðirnar og spilakvöldin. Þér var mjög umhugað um öryggi okkar mömmu. Ég mun halda áfram að fara varlega og hafa í huga „better safe than sorry“ eins og þú sagðir svo oft. Ég mun halda áfram að taka með mér reykskynjara í allar ferðir fyrir þig, ég lofa. Þú áttir það til að lauma litlum ferðareykskynjara með í töskurnar mínar þegar ég fór í ferðalög.

Það er ekki hálft ár síðan Alli bróðir þinn lést. Það var mikið áfall fyrir þig, þið voruð miklir vinir og ég trúi því að þið séuð sameinaðir á ný og séuð núna að ræða fótboltann eins og þið gerðuð alltaf.

Mér finnst mjög erfitt að hugsa til þess að þið mamma getið ekki notið eftirlaunaáranna saman eins og þið voruð búin að tala um og skipuleggja. Við mamma spjörum okkur, engar áhyggjur. Ég passa upp á hana og hún passar upp á mig, svo veit ég að þú verndar okkur hvar sem þú ert.

Ég elska þig pabbi. Þín,

Stella.

Kær mágur minn, eiginmaður Helgu systur, hefur lokið lífsgöngu sinni löngu fyrir aldur fram. Greindist með krabbamein fyrir ellefu mánuðum, viku eftir útskriftarveislu Stellu dóttur hans frá HÍ. Greiningin var okkur öllum í fjölskyldunni mikið áfall þótt við vonuðum að meðferð myndi skila árangri en við ekkert varð ráðið. En minningar brjótast fram um góðan dreng sem fyrst og fremst hafði hagsmuni og öryggi fjölskyldu sinnar í fyrirrúmi.

Það var árið 1995 sem Haraldur kom inn í fjölskylduna, bauð hann strax af sér góðan þokka sem hann gerði síðan alla tíð. Og ekki var nú verra að hann var uppalinn á Borðeyri og þekkti því til margra sem fjölskyldunni tengdust. Hann var rafmagnstæknifræðingur að mennt og vann lengi sem tæknimaður hjá Marel og síðar ISOR til starfsloka. Þegar unnið var að byggingu sumarhússins í Stekkjarborg kom það í hans hlut að ákvarða um vatnsból. Það vafðist nú ekki fyrir honum – gekk um landið og gaumgæfði og kvað síðan upp úr með það að hér skyldi grafið – og það stóðst alveg, eftir vísindalegar mælingar á vatnsmagni var vatnsbólinu valinn þarna staður og dugir enn alveg prýðilega. Hann var mikill útivistarmaður og naut þess að ganga á fjöll og ferðast um landið – og við starfslok fyrir rúmu ári stóð til að fara að njóta frelsisins bæði hér heima og erlendis og var margt spennandi á áætlun og í undirbúningi. En honum var það ekki ætlað og við óþægilega minnt á hverfulleika lífsins.

Það var Haraldi og Helgu mikil gæfa að eignast hana Stellu sína árið 2002. Nýtt hlutverk féll þeim vel og fórst afar vel úr hendi enda tóku þau því hlutverki sínu afar alvarlega. Var það eftirtektarvert og til eftirbreytni hversu mikla alúð hann lagði í það að allt væri eins og best yrði á kosið – þar sem öryggið var í fyrirrúmi, hann sá t.d. um að reykskynjarar og annar öryggisbúnaður væri í lagi í Stekkjarborg, sumarhúsi fjölskyldna okkar. Hann var afar handlaginn og vandvirkur við smíðar og flísalagnir – vitna verk hans á fallegu heimili þeirra í Grafarvoginum um það. Eins var hann áhugamaður um tónlist og dugði ekkert annað en það besta svo hennar væri notið sem best. Fyrir tveimur árum vorum við saman í viku tíma á Kanarí, við hjónin búin að fara oft þangað en þau í fyrsta sinn. Dýrmætur tími í minningunni en þetta átti nú svo sannarlega að endurtaka.

Við Ranný kveðjum Harald með sorg í hjarta og þökkum honum fyrir alla samveru og góða vináttu í gegn um árin. Helgu og Stellu vottum við okkar dýpstu samúð.

Kristján Þ. Gíslason.

Í dag kveðjum við vin okkar Harald Jónasson.

Það var á fundi hjá Íslenskri ættleiðingu í apríl 2002 sem við kynntumst fyrst Haraldi og Helgu. Þar kom saman hópur verðandi foreldra sem fengu þær eftirminnilegu fréttir að innan tveggja vikna yrði haldið til Suður-Kína, þar sem tíu stúlkur biðu þeirra. Okkar besta minning af Haraldi úr ferðinni er þegar hann sat með Stellu sína brosandi í fanginu. Það þurfti ekki að segja neitt, það sást svo greinilega að ósk þeirra hjóna hafði ræst. Ferðin var ógleymanleg og mynduðust vináttubönd sem hafa alla tíð verið okkur dýrmæt.

Haraldur var ástríkur faðir og eiginmaður með hlýja og góða nærveru. Hann hlustaði vel og lagði sitt til málanna. Hann hafði mikla tæknikunnáttu ásamt því að vera handlaginn en umfram allt skapaði hann ásamt Helgu og Stellu hlýlegt heimili. Einnig naut hann þess að hlusta á tónlist, þá helst óperur sem höfðu sérstakan stað í hjarta hans.

Hópurinn hefur haldið sambandi í gegnum árin og við eigum margar góðar minningar. Í mörg ár eftir heimkomu hittist hópurinn um það bil einu sinni í mánuði í kaffi og fórum við einnig í margar ferðir saman. Við ferðuðumst um landið, þar á meðal til Akureyrar, Drangsness og Laugaráss.

Við sendum Helgu og Stellu okkar dýpstu samúðarkveðjur, en minning Haraldar mun vera með okkur alla tíð.

Helga, Áslaug Rún, Sigríður (Sísí) og
Sunna Lind.