Jón Sigurgeirsson
Greinin er ekki tæmandi um lög sem gilda um sambúð og hjónaband, heldur stiklar á atriðum sem ekki eru á allra vitorði.
Margir halda að skráð sambúð jafngildi hjónabandi. Það er misskilningur. Þótt skráning veiti viss réttindi, þá er enginn erfðaréttur milli sambúðarfólks og óskipt bú er aðeins heimilt milli hjóna.
Fólk forðast oft hjónaband af ýmsum ástæðum – sumir vilja prófa sambandið fyrst, aðrir óttast skilnað eða telja giftingar dýrar. En það þarf hvorki kirkju né veislu; hægt er að gifta sig hjá sýslumanni án mikillar fyrirhafnar. Með giftingu fylgja skýr réttindi, svo sem gagnkvæmur erfðaréttur og réttur til óskipts bús. Menn eru jarðaðir í kyrrþey og geta líka gifst í kyrrþey. Síðar geta menn farið til kirkju í kjól og hvítu, með tilheyrandi glamúr.
Ef hjónaefnin eiga misjafnlega miklar eignir geta þau gert kaupmála um séreignir. Slíkur kaupmáli getur fallið úr gildi við andlát.
Við giftingu verða eignir ekki hrein sameign. Þær teljast hjúskapareignir hvors um sig og hefur eigandinn ráðstöfunarrétt yfir þeim í hjónabandinu, að undanskilinni fasteign sem fjölskyldan býr í. Sameiginlegu eignirnar skiptast jafnt við andlát eða skilnað, en séreignirnar ekki.
Makinn sem lengur lifir getur fengið að sitja í óskiptu sameiginlega búinu með sameiginlegum börnum við andlát hins. Ef stjúpbörn eru til staðar þarf að veita þann rétt með erfðaskrá. Slíkar erfðaskrár eru einfaldar og best að skrá þær hjá sýslumanni, sem varðveitir þær þá.
Ungt fólk hugsar e.t.v. ekki um dauðann. En hann kemur fyrr eða síðar, og full ástæða er til að huga að þessum málum í tíma.
Höfundur er aldraður lögfræðingur.