Reykjavíkurborg ætlar að draga úr slætti á völdum svæðum í borginni í sumar í þeim tilgangi að leyfa grasflötum að blómstra. Í tilkynningu frá borginni segir að þetta sé gert til að auka líffræðilega fjölbreytni og gera svæðin sjálfbærari en nú er.
Áhersla verður lögð á að halda áfram að slá svæði sem liggja upp að lóðum íbúa og meðfram stígum og götum. Einnig verður skrúðgörðum og mikið notuðum svæðum inni í hverfunum sinnt vel. Í tilkynningu segir að svæðin sem valin verða í þetta verkefni megi kalla viljandi villt.
Þó að svæði verði skilgreind sem viljandi villt þýðir það ekki að þeim verði ekki sinnt, heldur verður það gert með öðrum hætti en áður. Búast má við því að sumstaðar verði slegið að minnsta kosti einu sinni á ári, í lok sumars, til að forðast sinu. Í sumar verða svæði við Rafstöðvarveg og Sævarhöfða auk svæða víðar í borginni slegin einu sinni í stað hefðbundinna þriggja skipta.