Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ríkisstjórnin kannar nú hvort unnt sé að halda þingfundum áfram inn í júlí. Um það hefur verið hvíslað á göngum þingsins undanfarna daga, en Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingar staðfesti í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, sem birt eru í dag, að það kæmi vel til greina ef þurfa þætti.
Það sagði hún hins vegar ekki á ábyrgð stjórnarliða, það væri á valdi stjórnarandstæðinga hversu lengi þingfundir drægjust, en ríkisstjórnin ætlaði sér að klára sín mál.
Hins vegar kvaðst Dagbjört ekki hafa heyrt neinar bollaleggingar af hálfu stjórnarmeirihlutans um að beita ákvæði þingskapalaga til þess að stöðva umræðu og ganga til atkvæða.
„Eftir því sem ég best veit er það ekkert á dagskránni.“
Morgunblaðið leitaði svara hjá Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis um hvort rétt væri að athugað hefði verið að færa til sumarleyfi starfsmanna þingsins eða jafnvel ráða tímabundið starfsfólk, en hún hefur ekki svarað því.
Í þingskapalögum segir að sumarhlé þingsins sé frá 1. júlí til 10. ágúst, en það þarf þó ekki að hafa þýðingu. Alþingi ræður sér sjálft og er að störfum þar til forseti frestar fundum.
Afar fátítt er þó að fundur sé á Alþingi í júlí, helst þá sérstakir hátíðarfundir. Fordæmi er þó einn júlídagur 2021, þegar laga þurfti ákvæði í kosningalögum. Samfellt þinghald inn í sumarið er hins vegar óþekkt.
Fundir Alþingis
Alþingi er fullvalda og getur hagað fundum að vild.
Gera mætti það með samþykkt einfaldra afbrigða.
Sennilega dugar þó að forseti láti vera að fresta fundum.
Júlífundir eru ekki án fordæma en aðeins í einn dag.