Andrés Magnússon
andres@mbl.is
„Við ætlum að jafna það,“ svaraði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að bragði þegar hún var spurð af hverju höfuðborgarbúar væru ekki rukkaðir um auðlindagjöld af jarðhita, sem þeir nýttu til húshitunar.
„Við erum að vinna að því einmitt að gera þetta, vegna þess að við ætlum að vera með heildstæða auðlindastefnu,“ sagði forsætisráðherra og sagði að hún kæmi fram strax í haust, svo það mætti í lok árs jafna orkukostnað milli dreifbýlis og þéttbýlis.
„Það er verið að skoða þá leið að jafna það milli svæða, þó það þýði að einhver á höfuðborgarsvæðinu þurfi að borga aðeins meira.“ Hún bætti við að mögulega þyrftu stórnotendur að borga jöfnunargjald. „Allt þetta er sannarlega til skoðunar.“
Má bæta upp búsetuskilyrði
Hún var þá spurð hvort aðstöðumunur þeirra sem byggju á Stór-Reykjavíkursvæðinu innan Hvítánna tveggja og hinna væri ekki hliðstæður, hvort það að hafa höfuðborgina á næstu grösum væri ekki eins konar auðlind sem sumir nytu en aðrir ekki.
„Sammála,“ sagði Kristrún. „Það má alveg skoða það að jafna þetta út og við erum opin fyrir því.“
Þessi orðaskipti voru á opnum fundi sem Samfylkingin efndi til í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær.