Svalbarði Ísbjörn gengur yfir ísilagðan fjörð á Svalbarða í apríl sl. Land á eyjaklasanum reis um 20 millimetra á síðasta ári vegna bráðnunar jökla.
Svalbarði Ísbjörn gengur yfir ísilagðan fjörð á Svalbarða í apríl sl. Land á eyjaklasanum reis um 20 millimetra á síðasta ári vegna bráðnunar jökla. — AFP/Olivier Morin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óvenjuleg hlýindi á Svalbarða í fyrrasumar ollu mikilli jökulbráð. Kartverket, norska landmælingastofnunin, segir að þessi bráðnun jökla á Svalbarða hafi valdið því að land á eyjaklasanum reis um nærri 20 millimetra frá 1

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Óvenjuleg hlýindi á Svalbarða í fyrrasumar ollu mikilli jökulbráð. Kartverket, norska landmælingastofnunin, segir að þessi bráðnun jökla á Svalbarða hafi valdið því að land á eyjaklasanum reis um nærri 20 millimetra frá 1. júlí til 1. október.

Kartverket segir í tilkynningu að á árunum 2010-2020 hafi landris á Svalbarða numið að jafnaði um 10 millimetrum á ári á sumrin vegna bráðnunar jökla en land sigið um 2 millimetra að jafnaði á veturna þegar snjór safnaðist á ný fyrir á jöklunum. En síðasta sumar hafi bráðnunin verið óvenjulega mikil og landrisið sömuleiðis.

Stofnunin segir flókið að reikna út flatarmál landsins, sem reis úr sjó á Svalbarða á síðasta ári, enda beri heimildum ekki alveg saman um hve strandlengja eyjaklasans er löng, en áætlar samt að það hafi numið um 1,06 ferkílómetrum. Það svari til svæðis sem hægt væri að leggja á 148,5 knattspyrnuvelli.

Eignarhald til umræðu

Kartverket veltir í tilkynningunni fyrir sér eignarhaldi á landi sem verður til með þessum hætti og hvetur til umræðu um hvar mörkin eigi að liggja milli lands í einkaeigu og almannaeigu og áhrifanna sem landris, landfyllingar, hækkun yfirborðs sjávar og landbrot hafi á þær vangaveltur.

Segir stofnunin að í norrænu samstarfi landmælingastofnana hafi þessar spurningar verið ræddar. Þannig geti eldsumbrot og landris á Íslandi vakið svipaðar spurningar en hið gagnstæða eigi við í Damörku þar sem sé talsvert landbrot af völdum sjávar. Þarlend lög kveði á um að eignarlönd megi ekki liggja nær sjó en svo að tryggt sé að almenningur geti gengið meðfram þeim. Því geti vaknað spurningar um eignarhald á landinu ef fjaran nær að eignarlandinu vegna landbrots.

Land risið um 40 sentimetra

Guðmundur Þór Valsson, fagstjóri landmælinga hjá Náttúrufræðistofnun, segir að þessi mál hafi borið á góma á norrænum fundum, nú síðast í mars. Hann segir að hér á landi gildi svonefnd netlög og samkvæmt þeim eigi landeigendur land út í sjó, 115 metra frá stórstraumsfjöru. Í flestum öðrum löndum eigi ríkið fjöruna og eignarlóðir byrji ekki fyrr en við fjörumörk. En áður fyrr hafi fjörurnar verið mjög mikilvægar hér á landi vegna reka og annarra nytja og því skiljanlegt að aðrar reglur hafi gilt.

Umtalsvert landris hefur orðið á Íslandi undanfarna áratugi vegna bráðnunar jökla og segir Guðmundur að land hér bregðist hraðar við bráðnuninni en víðast hvar annars staðar vegna þess að það sé yngra.

Mest hefur land risið í kringum Vatnajökul. Byrjað var að mæla landris með síritandi GPS-mæli á Höfn í Hornafirði árið 1996 og frá þeim tíma hefur land þar risið um 1,5 sentimetra á ári að jafnaði þótt það sé breytilegt eftir afkomu jöklanna hverju sinni. Samkvæmt því má áætla að land á þessu svæði hafi risið um 40 sentimetra á þessu tímabili.

Guðmundur segir að ekki hafi verið reiknað út sérstaklega hve mikið land hafi bæst við vegna þessa. Á móti komi að talsvert landbrot hafi orðið á Suðurströndinni vegna ágangs sjávar.

Guðmundur segir að lítið hafi verið rætt hver eigi landið sem kemur undan jöklunum þegar þeir hopa enda sé það oft innan þjóðgarða. Hann segir að lóða- og landamerki séu ekki í jafn föstum skorðum hér á landi og víðast hvar annars staðar.

Svalbarði

60% eyjanna þakin jöklum

Svalbarði er eyjaklasi í Norður-Íshafi um 930 km norður af Tromsø í Noregi. Aðaleyjarnar eru níu og þar af er Spitsbergen stærst. Heildarflatarmál eyjanna er um 62.700 ferkílómetrar og um 60% þeirra eru þakin jöklum. Á Svalbarða búa að jafnaði um 3 þúsund manns, flestir í Longyearbyen.

Fram kemur í íslenskum annálum að Svalbarði hafi fundist árið 1194. Hvalveiðimenn nýttu eyjarnar sem veiðistöð frá 17. og fram á 19. öld og þar hafa einnig verið nýttar kolanámur.

Noregur fer með fullveldisréttindi yfir Svalbarða samkvæmt Svalbarðasamningnum frá 1920.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson