Breytingar Viðskiptavinir þurfa nú að greiða fyrir tóbak í sérstöku herbergi í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Starfsmaður límir svo yfir strikamerki.
Breytingar Viðskiptavinir þurfa nú að greiða fyrir tóbak í sérstöku herbergi í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Starfsmaður límir svo yfir strikamerki. — Morgunblaðið/Egill Aaron
Mikil umræða hefur verið um fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli eftir að þýska fyrirtækið Heinemann tók við rekstri hennar í síðasta mánuði. Margir hafa kvartað yfir því að vöruúrval sé mun lakara en áður var og dæmi eru um að vinsælar vörur á borð við …

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikil umræða hefur verið um fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli eftir að þýska fyrirtækið Heinemann tók við rekstri hennar í síðasta mánuði. Margir hafa kvartað yfir því að vöruúrval sé mun lakara en áður var og dæmi eru um að vinsælar vörur á borð við hvítvín, gin og neftóbak hafi ekki fengist í versluninni.

Nýverið var aftur farið að bjóða neftóbak í fríhöfninni en viðskiptavinir hafa furðað sig á nýjum viðskiptaháttum Heinemann við afgreiðslu þess. Tóbak er sem fyrr að finna í lokuðu rými í fríhöfninni. Áður labbaði fólk þar í gegn og greip með sér það sem það hugðist kaupa. Nú ber hins vegar svo við að sérstökum starfsmanni hefur verið komið fyrir inni í þessu litla rými og ber fólki að ganga frá kaupunum hjá honum.

Eftir að starfsmaðurinn hefur rukkað fyrir vörurnar þarf hann svo að líma rauða límmiða yfir strikamerki þeirra svo að viðskiptavinir verði ekki rukkaðir aftur á leið út úr versluninni. Vart þarf að taka fram að þetta fyrirkomulag getur verið mjög tímafrekt og ekki til að gleðja fólk sem er nýkomið úr flugi.

Frank Hansen, framkvæmdastjóri Ísland Duty Free, segir í skriflegu svari til Morgunblaðsins að fyrirtækið fari einfaldlega eftir kröfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Ætlað að mæta kröfum heilbrigðiseftirlitsins

„Tóbaksverslanir Ísland Duty Free eru starfræktar sem sérverslanir með tóbaksvörur á grundvelli leyfa útgefinna af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja samkvæmt ákvæðum laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Fyrirkomulaginu sem er viðhaft er ætlað að mæta kröfum samkvæmt leyfinu um að sérverslanir skuli aðgreindar frá öðrum verslunarrýmum og að viðskipti með tóbaksvörur fari að öllu fram inni í sérverslunarrýminu,“ segir Hansen sem útilokar þó ekki að þessu sérstaka fyrirkomulagi verði breytt.

„Breytingar kunna að vera gerðar á fyrirkomulaginu er fram líða stundir m.a. í tengslum við breytingar á verslunarrýmum.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon