Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Róbert R. Spanó
Í hádeginu í dag fer fram opinn fundur um vernd barna frá Úkraínu í Auðarsal í Veröld Vigdísar. Málefnið er bæði mikilvægt og grafalvarlegt en áætlað er að 35 þúsund úkraínskum börnum hafi verið stolið frá Úkraínu og þeim komið fyrir í Rússlandi eða fjarri fjölskyldum sínum á hernumdum svæðum. Þá eru milljónir barna á flótta undan innrásarstríði Rússa og hafa leitað skjóls annaðhvort innan Úkraínu eða flúið land. Þessu til viðbótar hafa hundruð þúsunda barna verið án foreldra sinna árum saman, horft upp á foreldri særast alvarlega, misst þá á vígvelli eða í loftárásum Rússa. Þau börn sem ekki hafa flúið eða misst heimili sín eða foreldra hafa búið við linnulausa ógn frá árásum Rússa á borgaraleg skotmörk. Skólastarf er markað langdvölum í sprengjubyrgjum. Frelsi og fegurð æskunnar hefur verið rænt af þeim.
Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur valdið ómældum mannlegum þjáningum og stórfelldri eyðileggingu. Ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins er ein hryllilegasta birtingarmynd innrásarstríðs sem er að gerast í rauntíma og við höfum vitneskju um. Að minnsta kosti 30 þúsund börnum hefur verið stolið, þau flutt frá heimahögum og þeim innrættur áróður gegn heimalandi sínu. Sum hafa verið send á víglínurnar til þess að berjast og deyja fyrir herinn sem reynir að sölsa undir sig landið þeirra, knésetja fólkið þeirra og útmá menningu þeirra.
Innrásarstríðið kemur okkur öllum við
Þetta er ekki bara barátta Úkraínu gegn ógnarstjórn hins illa heldur allra þeirra sem trúa á frið, mannréttindi og réttarríkið sem grundvöll mannlegrar tilveru. Í siðuðum heimi kemur ekki annað til greina en að ábyrgðarskylda og réttlæti sé tryggt vegna þeirra brota sem Rússland hefur framið. Stofnsetning tjónaskrár fyrir Úkraínu var ein helsta niðurstaða leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí 2023. Tjónaskráin
tekur til manntjóns, alvarlegra meiðsla og tjóns á eignum sem orðið hefur í stríði Rússlands í Úkraínu. Nú undirbýr tjónaskráin að taka sérstaklega fyrir brot sem framin hafa verið gegn börnum, þar á meðal þeim sem hafa verið brottnumin.
Við blasir að árásaraðilinn getur bundið enda á stríðið með þeirri einföldu ákvörðun að snúa heim til sín. Rússar geta sýnt friðarvilja með því að fara af landsvæði sem er ekki þeirra og skila tugum þúsunda úkraínskra barna sem þeir hafa stolið. En þar með væri ekki kominn á raunverulegur friður því að Rússland þarf að bæta Úkraínu upp það tjón sem er bætanlegt og byggja þarf upp landið að nýju. Stöðvun innrásar og árása Rússa er aðeins fyrsta skrefið að raunverulegum friði.
Þetta verður rætt á opnum í dag sem utanríkisráðherra opnar og þar sem undirrituð tekur þátt í umræðum ásamt Yuliu Kyrpa, framkvæmdastjóra hjá AEQUO og stjórnarmanni hjá tjónaskrá Evrópuráðsins fyrir Úkraínu, og Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi. Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, stýrir fundinum. Fundurinn hefst kl. 12 og fer fram á ensku.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er sérstakur erindreki Evrópuráðsins í málefnum úkraínskra barna. Róbert R. Spanó er formaður stjórnar tjónaskrár Evrópuráðsins fyrir Úkraínu.