Sýnatökur Ný sýni voru tekin í seinustu viku, öll reyndust neikvæð.
Sýnatökur Ný sýni voru tekin í seinustu viku, öll reyndust neikvæð. — Morgunblaðið/Eggert
Elín M. Stefánsdóttir, bóndi á bænum Fellshlíð í Eyjafirði og stjórnarformaður MS, segir það bölvað vesen að upp komi salmonellusmit. Upp kom smit í nokkrum nautgripum á hennar bæ fyrr í mánuðinum. Ástæða sýnatökunnar var að einstaklingur sem…

Brynhildur Glúmsdóttir

brynhildur@mbl.is

Elín M. Stefánsdóttir, bóndi á bænum Fellshlíð í Eyjafirði og stjórnarformaður MS, segir það bölvað vesen að upp komi salmonellusmit. Upp kom smit í nokkrum nautgripum á hennar bæ fyrr í mánuðinum.

Ástæða sýnatökunnar var að einstaklingur sem tengist búinu greindist með salmonellusýkingu og nokkrir gripir á búinu sýndu einkenni sýkingarinnar.

„Það eru náttúrulega ekkert mörg tilfelli af veikindum, það hafa ekki margar skepnur veikst þannig þetta er ekki eitthvað bráðsmitandi, það voru þrír gripir sem þetta var staðfest í, tveir náðu sér aftur og einn drapst,“ segir Elín.

Að sögn Matvælastofnunar er salmonellusmit afar óalgengt meðal nautgripa.

Fleiri sýni voru tekin á bænum í seinustu viku til að kanna útbreiðslu sýkingarinnar í hjörðinni og umhverfi hennar.

„Svo í síðustu viku voru tekin sýni úr einhverjum gripum, vatni, fóðri og úr stíunum og það kom neikvætt úr því öllu.“

Elín segir það ómögulegt að vita hvaðan þetta kom.

„Okkar ágiskun er sú að þetta hafi bara komið úr fuglunum, sem skíta á heyið eða úti á túni. Það er endalaust af álftum og gæsum vappandi um á túnunum.“

Nú eru þau í flutningsbanni með skepnur úr búinu. Þeim takmörkunum verður aflétt eftir tvo mánuði ef endurtekin sýni sem tekin eru með 30 daga millibili reynast öll neikvæð.

Höf.: Brynhildur Glúmsdóttir