Undirskriftasöfnun Íbúar í Vesturbænum safna undirskriftum til að mótmæla nýsamþykktu deiliskipulagi. Verktakinn undirbýr framkvæmdir.
Undirskriftasöfnun Íbúar í Vesturbænum safna undirskriftum til að mótmæla nýsamþykktu deiliskipulagi. Verktakinn undirbýr framkvæmdir. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er ekki í samræmi við borgarverndarkaflann í aðalskipulagi og þess vegna er ennþá hægt að stöðva þessa framkvæmd,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, íbúi í Vesturbænum, um fyrirhugaða íbúabyggð við Vesturbugt

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Þetta er ekki í samræmi við borgarverndarkaflann í aðalskipulagi og þess vegna er ennþá hægt að stöðva þessa framkvæmd,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, íbúi í Vesturbænum, um fyrirhugaða íbúabyggð við Vesturbugt. Hún er ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunar á Ísland.is þar sem deiliskipulaginu er mótmælt.

Spurð hvort þetta komi ekki of seint þar sem borgin er bæði búin að skipuleggja svæðið og selja, og sá sem keypti sé í góðri trú um að hann hafi fulla heimild til að byggja, segir Ásta að svo sé ekki.

„Deiliskipulagið er ekki í samræmi við borgarverndarkaflann í aðalskipulagi Reykjavíkur um svæðið innan Hringbrautar og á þeim grundvelli teljum við að deiliskipulagið standist ekki aðalskipulag.“

Hún vísar í greinargerð aðalskipulags Reykjavíkur þar sem stendur á blaðsíðu 143:

„Á reitum þar sem nú þegar hefur verið heimiluð mikil endurbygging verði lögð áhersla á lausnir og útfærslur sem fela í sér jákvætt samspil húsverndar og nýrrar uppbyggingar. Tryggt verði að söguleg vídd og fjölbreytni einstakra gatna og götumynda raskist ekki.“

Örn Kjartansson framkvæmdastjóri Vesturbugtar segir að uppbyggingin sé ekki háreist ofurþétting heldur sé byggðin að mestu 3-4 hæðir, bil á milli húsa og eingöngu 5 hæðir á norðurhorninu við hliðina á Mýrargötu 26 sem er 6-7 hæðir.

„Þetta er glænýtt deiliskipulag sem Reykjavíkurborg lét sjálf vinna fyrir sig. Það er það sem ég keypti og er að fara að byggja.“

Hann tekur fram að minni reiturinn sé allur 3-4 hæðir með bili á milli húsa og almenningsinngörðum.

„Ég hef verið í sambandi við þetta fólk sem stendur fyrir undirskriftalistanum og gerði því grein fyrir því að það stæði til að byggja þarna mjög góða og fallega íbúabyggð sem er í tengslum við byggingarnar bæði hægri og vinstra megin við.“

Í gær höfðu rúmlega 600 manns sett nafn sitt á undirskriftalistann.

Ekki náðist í Dóru Björt Guðjónsdóttur, formann skipulagsráðs Reykjavíkur.

Höf.: Óskar Bergsson