Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Markmið hins raunverulega lífs ætti að einkennast af raunverulegum skilningi á verðmætum sálarinnar.

Einar Ingvi Magnússon

Þegar „siðmenntaðir“ Evrópubúar voru að búsetja sig í Norður-Ameríku tóku innfæddir fljótlega eftir sérstökum lífsstíl aðkomumanna, sem einkenndist af græðgi og þeirri áráttu að kasta eign sinni á landið og gæði þess. Fyrir frumbyggja Ameríku var þetta framandi og óeðlilegur lífsstíll og ekki í jafnvægi við náttúruna.

Hugarfar Evrópumanna var að afla sér meira en þeir þurftu og tóku að arðræna bæði lönd og þær þjóðir sem bjuggu þar fyrir, svo og hverjir aðra. Þeir vildu slá eign sinni á allt, þótt ekki væri það þeirra né þeim ætlað.

Siðmenning Evrópumanna hefur í aldir gengið út á græðgi og arðrán hvar sem hún hefur fest rætur.

En þetta er óheilbrigður lífsstíll, sem allar þjóðir sem urðu undirokaðar siðmenningunni liðu fyrir. Frumbyggjar Ameríku sögðu um aðkomumenn: Þeir koma með hina fjölmörgu sjúkdóma til okkar og síðan byggja þeir sjúkrahús fyrir okkur.

Siðmenningin er ekki lífsstíll gæfu og gengis, heldur stríðsvöllur fólks sem ann sér ekki hvíldar og hamingju sökum græðgi og yfirgangssemi gagnvart gjöfum lands og sjávar og annarra manna.

Það sem átti að vera samfélag gjörðist stríðsátakasvæði, þar sem barist er um auð og völd að hætti „siðmenntaðra“ manna og allt samkvæmt lögum og reglugerðum. Tilgangurinn virðist að knésetja sem flesta til að upphefja sjálfan sig. Stutt æviskeið manna snýst um þennan vitfirrta lífsstíl siðmenningarinnar, sem heldur fólki í fjötrum frá vöggu til grafar. Gildir þá einu hvort um ræðir herrann eða hinn ánauðuga.

Markmið hins raunverulega lífs ætti að einkennast af skilningi á verðmætum sálarinnar og samhjálpar í samfélagi sem þær byggja sinn stutta tíma í holdinu hér á jörð.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Höf.: Einar Ingvi Magnússon