Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Lögin gáfu stjórnvöldum tækifæri til að efla hagstjórn þar sem önnur meginstoð þeirra er hagstjórnarstoðin sem ekki hefur verið virkjuð sem skyldi.

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Fyrir áratug voru sett ný lög um opinber fjármál sem unnin voru í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Lög sem horft er til víða um heim sem fyrirmynd að lögum á þessu sviði. Meginmarkmið/gildi laganna eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Lögin tengja saman langtímaáætlun til þriggja áratuga sem uppfæra skal reglubundið og lítur að sjálfbærni opinberra fjármála – að ekki sé lifað á kostnað framtíðakynslóða – og bestu nýtingar framleiðsluþátta yfir hagsveifluna samkvæmt markmiðinu um stöðugleika.

Til viðbótar varfærni og festu leggja þau áherslu á gagnsæi opinberra fjármála, þannig að öllum landsmönnum sé sýnilegt hvort meginmarkmiðum laganna séu náð. Áherslan er því fyrst og fremst á heildarafkomu og skuldastöðu opinberra aðila líkt og í flestum ríkjum1) enda mælir heildarafkoman hvort hið opinbera sé að leggja eitthvað til hliðar fyrir framtíðaáskoranir eða ekki2)

Nú stendur til að breyta lögunum í grundvallaratriðum. Í stað áherslu á heildarafkomu opinberra fjármála á að leggja áherslu á raunvöxt útgjalda (ekki allra útgjalda heldur sumra) með nýrri stöðugleikareglu. Ljóst er að meginmarkmið um gagnsæi laganna er fokið út í veður og vind, því mikil áskorun er að staðvirða útgjöld til að fá raunútgjöld og hvergi í töfluverki laganna sem byggir á alþjóðastaðli um opinber fjármál (GFS) og þjóðhagsreikningum Sameinuðu þjóðanna (SNA) er að finna gagnsæ skil um raunvöxt útgjalda. Staðvirðing útgjaldanna verður líklega unnin af fjármálaráðuneytinu sjálfu eftir á og því fáum til gagns í samtímaaðhaldi að framkvæmd fjárlaga.3)

Frumskilyrði er að skilja núverandi lög um opinber fjármál – svo sem hugtakið gagnsæi og muninn á hugtökunum sjálfbærni (langtíma hugtak) og stöðugleika (hagsveiflu hugtak) – áður en ráðist er í að breyta þeim í grundvallaratriðum. Hagstjórnin hér á landi hefur því miður ekki verið með allra besta móti undanfarna áratugi4) og því ekki skynsamlegt að breyta góðum ráðleggingum utanaðkomandi aðila án verulegrar yfirlegu og íhugunar, en í fyrstu grein laganna segir „Markmið laga þessa er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála„. M.ö.o. lögin gáfu stjórnvöldum kærkomið tækifæri til efla hagstjórn hér á landi þar sem önnur meginstoð þeirra er hagstjórnarstoðin sem ekki hefur verið virkjuð sem skyldi, en megináhersla hefur verið á fjárlagastoðina eins og í fyrri lögum en þó með veika framtíðasýn (fjármálastefna og fjármálaáætlun). Vonandi tekst okkur að taka upp ný vinnubrögð við hagstjórn!

1) T.d. Maastricht-skilyrðin.

2) Með þenslu- eða samdráttaráhrif.

3) Sem dæmi geta laun vaxið um 10 prósent þótt raunvöxtur þeirra sé enginn!

4) Sjá ritið „Uppruni þjóðarsáttar og aðrar hagstjórnaráskoranir“ uppfært í maí 2025.

Höfundur er fv. hagfræðingur AGS.

Höf.: Jóhann Rúnar Björgvinsson