Edition Feðgin fundust látin á hótelherbergi um helgina.
Edition Feðgin fundust látin á hótelherbergi um helgina. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Lögreglan hefur yfirheyrt frönsku konuna sem er með stöðu sakbornings eftir að dóttir hennar og maður fundust látin á Edition-hótelinu um síðustu helgi. Hvorki konan né feðginin höfðu komið við sögu lögreglu áður

Lögreglan hefur yfirheyrt frönsku konuna sem er með stöðu sakbornings eftir að dóttir hennar og maður fundust látin á Edition-hótelinu um síðustu helgi. Hvorki konan né feðginin höfðu komið við sögu lögreglu áður.

„Við höfum náð að gera það. Hún var vissulega með stunguáverka en við fengum færi á að yfirheyra hana,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

„Við erum ekki langt á veg komin með rannsóknina og margt er fram undan í rannsóknaraðgerðum. Tæknideildin er á lokametrunum en þá tekur við vinna á rannsóknarstofu og þess háttar,“ segir Ævar.

Lögreglan hefur nú tekið skýrslu af bæði starfsfólki hótelsins og gestum.

Lögreglan í samvinnu við hótelið kom hótelgestum í samband við Rauða krossinn sem veitir stuðning og áfallahjálp eftir atvikum.

Ævar Pálmi segir íslensku lögregluna í þó nokkrum samskiptum við lögregluyfirvöld í Frakklandi og á Írlandi.

Hann segir lögreglu finna fyrir miklum áhuga erlendra fjölmiðla á málinu og meðal annars hafi verið veitt viðtöl við írska og franska blaðamenn í dag.

Að sögn Ævars Pálma er talsvert álag á miðlæga deild sem rannsakar alvarleg ofbeldisbrot.

„Hjarðarhagabruninn, Súlunesmálið og maður sem drukknaði í sjósundi hafa komið upp á tiltölulega stuttum tíma. Tvö þeirra mála auk þessa nýjasta máls snúast um útlendinga og allt saman krefst þetta samskipta við erlend yfirvöld. Það hægir á öllu,“ segir Ævar.

Þá þurfa menn að reiða sig á þýðingar á gögnum og túlkaþjónustu.