Reynsla af notkun ómerktra bíla til hraðamælinga er mjög góð en slíka bíla má finna víða um landið.
Þetta segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við Morgunblaðið.
„Við höldum úti öflugu umferðareftirliti á flestum lögreglubifhjólum, merktum lögreglubílum og ómerktum lögreglubílum og þetta er bara hluti af okkar umferðareftirliti að hafa ómerkta bíla,“ segir Árni.
Hann segir það virka jafnt á við sýnilega löggæslu og að þetta sé bara hluti af þessu eftirliti, að hafa merkta og ómerkta bíla.
Merktir sem ómerktir
„Oft og tíðum höfum við auglýst hvar við erum að mæla og þá vita ökumenn nákvæmlega upp á hár hvar við erum og klukkan hvað. Svo sleppum við því líka að auglýsa, þannig að fólk getur átt von á því að lögreglan sé við umferðareftirlit annað hvort með einkennd ökutæki eða ekki,“ segir Árni.
Bílunum er lagt í vegköntum víða um landið og eru þeir með hraðamælitæki og myndavél í skottinu sem myndar þá bíla sem fara of hratt framhjá og getur bílstjórinn búist við sekt í kjölfarið.
Á meðfylgjandi mynd er ómerktur bíll við afleggjarann að Grundartanga í Hvalfirði en þar er leyfilegur hámarkshraði 70 km/klst. Sama bíl hafði einnig verið lagt nýverið við þjóðveginn um Bifröst í Borgarfirði, þar sem leyfilegur hraði er lækkaður í 70 km/klst. brynhildur@mbl.is