Það eru eflaust margir vestrænir þjóðarleiðtogar sem taka undir með orðum Friedrichs Merz kanslara Þýskalands um að Ísrael sé með árásum sínum á kjarnorkuinnviði Írans að vinna skítverkin fyrir vestræna heiminn. Þetta segir Stefán Gunnar Sveinsson blaðamaður á Morgunblaðinu í nýjasta þætti Dagmála.
„Ég held að í grunninn hafi hann alveg rétt fyrir sér [Merz]. Íran með kjarnorkuvopn er ekki möguleiki sem við á Vesturlöndum viljum horfast í augu við.“
Vika er liðin síðan Ísraelsmenn hófu árásir á kjarnorku- og hernaðarinnviði Írana. Nokkuð ljóst er að Íranir voru að auðga úran í þeim tilgangi að koma sér upp kjarnorkuvopnum.
„Það er nákvæmlega engin ástæða fyrir Írana að vera að auðga úran upp í 60% eða 90%,“ segir Stefán.