Þór Jakobsson
Á sumarsólstöðum, þann 21. júní 1985, var fyrsta sólstöðugangan gengin frá Þingvöllum til Reykjavíkur. Undirbúningurinn hafði staðið yfir í nokkra mánuði. Kallaður hafði verið saman lítill hópur fólks, fulltrúar ýmissa félagasamtaka og aðrir líklegir áhugamenn. Hugmyndinni hafði verið lýst í blaðagreinum, þar sem fram kom að vonast væri til að með tíð og tíma yrði haldin samtengd sólstöðuhátíð víðs vegar um heiminn. Kjörorðið var að sólstöðugangan væri „meðmælaganga með lífinu og menningunni“.
Á hverju ári síðan – að undanskildum tveimur covid-árum – hefur sólstöðuganga verið gengin á höfuðborgarsvæðinu, síðustu 15 árin í Viðey. Ef sólstöðumínútuna bar upp á meðan á göngunni stóð, var gert hlé og staðnæmst í mínútuþögn til að hugleiða lífið og tilveruna. Hugsjónin er sem sagt að sams konar sólstöðugöngur – eða hátíðir – verði haldnar á sama tíma víða um heim. Sólstöðumínútan er sú sama hvar sem er á jörðinni! Hugleiddu það, lesandi góður.
En þess má geta að vissulega eru allir velkomnir í göngunni án þess að vera gagnteknir af svo háleitum, fjarlægum markmiðum. Hver og einn nýtur rólegrar göngu um fallega bæjareyjuna sína, gengur sér til hressingar í samneyti við vini og vandamenn og aðra sem slást í hópinn.
Á þessum rúmum fjórum áratugum göngunnar hefur ýmislegt breyst og þá helst það að gangan er nú í höndum Borgarsögusafns sem hefur af myndarbrag tekið við skipulagningu af hópi áhugamanna fyrstu áratugina. Laugardagskvöld, sólstöðudaginn 21. júní nk., verður 15. gangan í Viðey þar sem farnar hafa verið ýmsar leiðir um hina heillandi, sögufrægu eyju. Leiðsögumaður verður Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns og sagnfræðingur. Undanfarin ár hefur verið til siðs að bjóða til liðs við gönguna „heiðursgesti“ sem ávarpar göngufólk á vel völdum stað í göngunni. Gestur göngunnar að þessu sinni verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagnfræðingur, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og utanríkisráðherra.
Mörg þúsund manns hafa nú fyrr eða síðar tekið þátt í Sólstöðugöngunni í Viðey, Öskjuhlíð eða annars staðar um höfuðborgarsvæðið, ýmist í sól eða regni, logni eða strekkingi – og langflestir haft ánægju af. Greinarkorn þetta er samið til að skora á þá, sem enn hafa ekki komið í slíka upplífgandi göngu, að láta verða af því.
Þór Jakobsson veðurfræðingur er áhugamaður um alþjóðlega sólstöðuhátíð.