Elín Hirst
Elín Hirst
Byggð verður heil hæð ofan á húsið, tvær álmur lengdar. Íbúar hjúkrunarheimilisins munu þurfa að búa í húsinu á meðan að þessu fer fram.

Elín Hirst

Faðir minn er íbúi á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík. Hann verður 91 árs á þessu ári og er heilsulítill og má lítið út af bregða í þeim efnum. Vafalaust eru margir íbúar heimilisins við verri heilsu en pabbi og enn viðkvæmari fyrir raski og hávaða en hann, svo ekki sé talað um skyndilegar breytingar á umhverfi og daglegri rútínu.

Eins og fram kom í nýlegri grein fjögurra lækna, þeirra Einars Stefánssonar, Gests Pálssonar og öldrunarlæknanna Jóns Snædal og Jóns Eyjólfs Jónssonar í Læknablaðinu undir yfirskriftinni „Vanhelgun ævikvölds“, hefur verið ákveðið að stækka hjúkrunarheimilið að íbúum þess forspurðum. Fyrirhugað er að byggingarframkvæmdirnar standi í rúm tvö ár. Byggð verður heil hæð ofan á húsið, tvær álmur lengdar og íbúðum fjölgað úr 92 í 150-160. Til stendur að íbúar hjúkrunarheimilisins búi í húsinu allan tímann sem byggingarframkvæmdirnar standa yfir. Það liggur þó í hlutarins eðli að hávaði og rask sem hlýtur að fylgja slíkri framkvæmd mun valda mikilli skerðingu á lífsgæðum íbúa heimilisins og mun þessi nýi veruleiki gnæfa yfir lífi þeirra.

Sóltún starfar í umboði ríkisins

Sóltún starfar eftir þjónustusamningi við ríkið sem var gerður á árinu 2000 í framhaldi af útboði ríkisins á rekstri hjúkrunarheimilis. Sóltún (Öldungur hf.) varð hlutskarpast í því útboði, en gekkst um leið undir skyldur bæði gagnvart ríkinu og íbúum um að veita hjúkrunarþjónustu af bestu gerð sem uppfylli kröfur um gæði og virði mannréttindi. Þessa þjónustu veitir Sóltún í umboði ríkisins og þiggur háar upphæðir úr ríkissjóði fyrir hana. Íbúar sem eru aflögufærir greiða einnig háar upphæðir fyrir dvöl á Sóltúni svo að lítið ráðstöfunarfé situr eftir hjá íbúum heimilisins í lok hvers mánaðar.

Hver vísar á annan

Ég hef ásamt hópi aðstandenda íbúa á Sóltúni lýst verulegum áhyggjum af fyrirætlunum um þessar tímafreku og hávaðasömu framkvæmdir. Til að glöggva okkur á því hvaða lagaskyldur Sóltún og ríkið beri gagnvart íbúum heimilisins höfum við gert tilraun til að afla upplýsinga frá ýmsum opinberum stofnunum um þjónustusamning Sóltúns og ríkisins frá árinu 2000. Til stuðnings beiðni okkar um að fá að kynna okkur þennan 25 ára gamla þjónustusamning höfum við vísað til ákvæða upplýsingalaga sem tryggja almenningi aðgang að gögnum sem varða opinbera þjónustu sem þessa.

Sú eftirgrennslan hefur þó lítinn árangur borið, enn sem komið er. Heilbrigðisráðuneytið hefur vísað á Sjúkratryggingar sem hafa enn ekki afgreitt beiðni okkar um að fá samninginn afhentan þótt tæpir þrír mánuðir séu liðnir frá því hún kom fram. Okkur hefur jafnframt ekki tekist að ná fundi forsvarsmanna Sjúkratrygginga, þótt eftir því hafi verið leitað og ítrekað. Þá hefur Sóltún lagst gegn því að við fáum að kynna okkur þjónustusamninginn á þeim forsendum að hann innihaldi viðskiptaleyndarmál.

Hvar er rekstrarleyfið?

Við óskuðum einnig eftir því við heilbrigðisráðuneytið að fá aðgang að rekstrarleyfi Sóltúns, en fengum þau svör að leyfið finnist ekki í skjalasafni ráðuneytisins. Á heimasíðu Sóltúns er ekki heldur hægt að nálgast upplýsingar um þjónustusamninginn við ríkið sem fyrirtækið á að starfa eftir, né er þar minnst á þau lög og reglur sem gilda um starfsemi hjúkrunarheimilisins. Á vefsíðum hins opinbera eru upplýsingar um þessi mikilvægu atriði einnig af skornum skammti.

Áleitnar spurningar vakna

Allt er þetta með ólíkindum og er það ekki til þess að auka traust á stjórnsýslu í þeim mikilvæga málaflokki sem málefni aldraðra er. Þá vekur þessi staða áleitnar spurningar um hver gætir í raun og veru réttinda aldraðra sem dvelja á hjúkrunarheimilum, sem eru rekin fyrir opinbert fé þótt einkaaðilar haldi utan um reksturinn í umboði ríkisins. Hjá hinu opinbera virðast þó öll ljós vera slökkt, á meðan einkafyrirtækinu er eftirlátið að hafa sína hentisemi um hvort það uppfylli skyldur sínar gagnvart íbúum Sóltúns í samræmi við gerða samninga og mannréttindi.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður, fréttastjóri RÚV og fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Höf.: Elín Hirst