Fleiri tugir íslenskra fyrirtækja hafa þegar skráð sig í hópmálsókn á hendur bókunarsíðunni Booking.com. Mörg þúsund evrópsk fyrirtæki hafa í heildina skráð sig í hópmálsóknina. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Fleiri tugir íslenskra fyrirtækja hafa þegar skráð sig í hópmálsókn á hendur bókunarsíðunni Booking.com. Mörg þúsund evrópsk fyrirtæki hafa í heildina skráð sig í hópmálsóknina.

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið.

Samtök ferðaþjónustunnar sendu frá sér tilkynningu í lok maímánaðar þar sem íslensk hótel voru hvött til þess að skrá sig til þátttöku í hópmálsókn gegn Booking.com. Evrópsku hagsmunasamtökin HOTREC standa að málsókninni ásamt 25 landssamtökum fyrirtækja í gistiþjónustu víðsvegar um Evrópu.

Málsóknin kemur til í kjölfar dóms Evrópudómstólsins þess efnis að Booking hafi með svokölluðum verðjöfnunarskilmálum misnotað markaðsráðandi stöðu og þar með brotið í bága við samkeppnisreglur Evrópusambandsins. Skilmálarnir eru því að mati dómstólsins ólöglegir en Jóhannes segir verðjöfnunarskilmálana vera hluta af almennum skilmálum hjá Booking sem og fleiri bókunarsíðum.

Í stuttu máli er hægt að lýsa verðjöfnunarskilmálunum á þann hátt að þeir komi í veg fyrir það að hótel sem nota þjónustu Booking geti boðið upp á lægra verð en Booking býður.

Býst við yfir 100 skráningum

Jóhannes segir að Samtök ferðaþjónustunnar hafi fundið fyrir miklum áhuga hjá íslenskum fyrirtækjum vegna málsóknarinnar, enn er þó eitthvað í það að skráningarfrestur í málsóknina renni út að sögn Jóhannesar. Tugir íslenskra fyrirtækja hafa skráð sig en Jóhannes býst við því að þegar skráningarfrestur renni út verði heildarfjöldi íslenskra fyrirtækja sem taki þátt í málsókninni kominn yfir hundrað.

Eins og áður segir er um samevrópskt verkefni að ræða og verður því málið höfðað fyrir dómstólum í því landi þar sem Booking er skráð.

„Málið verður rekið fyrir hollenskum dómstólum. Booking er skráð í Hollandi og þess vegna verður málið tekið fyrir þar. Það fer síðan eftir lagatæknilegum atriðum hvaða lögum dómstóllinn ákveður að fara eftir í málinu, hvort það verði Evrópulöggjöf, hollensk lög eða lög hvers ríkis fyrir sig. Sama við hvað er miðað þá ætti það að leiða til sömu niðurstöðu enda var Evrópudómstóllinn mjög skýr um það að þarna hefði Booking beitt markaðsráðandi stöðu á ólöglegan máta,“ segir Jóhannes.

Bjartsýnn á framhaldið

Jóhannes segist bjartsýnn á að hollenskir dómstólar dæmi málið hótelunum í vil.

„Við erum bjartsýn og þeir sem hafa undirbúið málið lagalega séð og fylgt því eftir meðal annars fyrir Evrópudómstólnum eru bjartsýnir á niðurstöðuna. Að sjálfsögðu er aldrei hægt að lofa neinu og það er alltaf ákveðinn varnagli sem þarf að slá. Dómur Evrópudómstólsins er þó skýr og lagaleg staða fyrirtækjanna leiðir að því að þau eigi rétt á bótum. Fyrirtæki eiga rétt á þessu bæði í gegnum ESB-rétt og EES-rétt. Við erum nokkuð bjartsýn á það að þessi réttur sé til staðar og að dómsniðurstaða yrði okkur í hag,“ segir Jóhannes

Jóhannes segir þó að Booking geti séð sér leik á borði og reynt að semja sig út úr yfirvofandi dómsmáli en það myndi þá fela í sér viðurkenningu á því að brotið hafi verið á rétti fyrirtækjanna og myndi leiða af sér greiðslu skaðabóta.

Fyrirtæki geta tekið þátt í hópmálsókninni án þess að þátttaka leiði til lagalegrar áhættu eða kostnaðar en Jóhannes segir að málsóknin verði fjármögnuð af stórum fjármögnunaraðilum erlendis sem munu taka á sig málskostnað ef málið tapast gegn því að fá greiddan hluta af þeim skaðabótum sem dómstólar kunni að dæma fyrirtækjunum í vil. Jóhannes segir því áhættuna vera enga fyrir fyrirtæki að taka þátt í málsókninni gegn Booking.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson