Í Þjóðleikhúsinu Hakon Brandes sendiherra Finnlands afhendir Jóni Óttari Ragnarssyni verðlaunin sem markaðsmanni Norðurlanda 1989.
Í Þjóðleikhúsinu Hakon Brandes sendiherra Finnlands afhendir Jóni Óttari Ragnarssyni verðlaunin sem markaðsmanni Norðurlanda 1989. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Óttar Ragnarsson, fyrsti sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, var útnefndur markaðsmaður Norðurlanda 1989 og fékk gullpening norrænu markaðssamtakanna því til staðfestingar, en þeir Hans Kristján Árnason höfðu frumkvæði að stofnun stöðvarinnar, sem fór fyrst í loftið 9

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Jón Óttar Ragnarsson, fyrsti sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, var útnefndur markaðsmaður Norðurlanda 1989 og fékk gullpening norrænu markaðssamtakanna því til staðfestingar, en þeir Hans Kristján Árnason höfðu frumkvæði að stofnun stöðvarinnar, sem fór fyrst í loftið 9. október 1986.

Frumkvöðlinum var óneitanlega brugðið þegar tilkynnt var í liðinni viku að Stöð 2 héti Sýn hér eftir. Einu þekktasta vörumerki Íslendinga var varpað fyrir róða í einu vetfangi. „Rétt eins og þúsundum annarra Íslendinga brá mér auðvitað við þær fréttir að það ætti að leggja niður nafn Stöðvar 2, rétt handan við 40 ára afmæli stöðvarinnar, því þó að ég segi sjálfur frá þá eiga Íslendingar ekki mörg goðsagnakennd vörumerki sem þeir hafa búið til sjálfir, því miður.“

Ríkisútvarpið var stofnað 1930 og ríkissjónvarpið 1966. Ríkið einokaði þennan rekstur samkvæmt lögum, en 1985 samþykkti Alþingi ný lög, sem heimiluðu einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, og tóku þau gildi í ársbyrjun 1986. Undirbúningshópur Stöðvar 2 beið ekki boðanna og hóf samkeppni við ríkisreknu stöðina með ávarpi Jóns Óttars. „Einokun ríkissjónvarpsins á öldum ljósvakans hefur verið afnumin. Stöð 2 er orðin að veruleika,“ sagði hann.

Innihaldið gleymist

„Stöð 2 stóð fyrir svo margt annað en bara afþreyingu og góða skemmtun, eins og frumkvæði og sjálfstæði, fjölbreytni og djörfung og nýjungar og var endalaus uppspretta alls konar góðra hugmynda í gegnum tíðina,“ rifjar Jón Óttar nú upp.

Samtök íslensks markaðsfólks, ÍMARK, voru stofnuð 1986 og í tilefni 20 ára afmælisins var meðal annars viðtal við Jón Óttar í afmælisblaðinu þar sem hann leit um öxl. „Ég var auðvitað afar stoltur af að vera kominn í hóp með helstu eldhugum í viðskiptalífi Norðurlanda, goðsögnum á borð við Per Gyllenhammer, stofnanda Volvo, stofnendur Saab, SAS o.fl. Auðvitað vissi ég mætavel að Stöð 2 var með forskot. Sem fyrsta einkavædda sjónvarpsstöðin á Norðurlöndum gat ekki farið hjá því að litið væri á Stöð 2 sem boðbera nýrra tíma. Skandinavar fylgdust því afar vel með því hvernig við stóðum að markaðssetningu og landsvæðingu, en ekki síður hvaða meðulum við beittum í baráttu við aðalkeppinautinn; að vísu staðnað, en risavaxið ríkisbákn, sem gerði allt sem í þess valdi stóð til að gera okkur erfitt fyrir.“

Í fyrrnefndu ávarpi benti Jón Óttar á að frá þessari stundu yrðu allir að lúta lögmálum hins frjálsa markaðar. „Þrátt fyrir vissa einokunartilburði keppinautar okkar síðustu daga, vonum við að Golíat sætti sig við að tími einokunar er liðinn.“

Jón Óttar óttast nafnbreytinguna. „Ég gleðst þó yfir því að þeir haldi áfram að reka fréttastofu en það er sorglegt að sjá að í fyrsta sinn hafa nú tekið við nýir stjórnendur sem ekki virðast hafa hugmyndaauðgi, þekkingu eða reynslu til þess að halda áfram með þessu dýrmæta nafni og öllu því sem það stóð fyrir,“ segir hann.

Í tæplega 40 ár hefur Stöð 2 staðið vaktina með einum eða öðrum hætti þrátt fyrir ágjöf og breytingar, en Jón Óttar bendir á að nú hafi verið gengið of langt.

„Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem skipt er um umbúðir en aðalatriðið gleymist, sem er innihaldið og þar með ánægðir og tryggir áskrifendur. Ég þakka þeim öllum stuðninginn við stöðina í hartnær 40 ár!“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson