Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Íbúar á Raufarhöfn í Norðurþingi voru sem steinilostnir á miðvikudagskvöld þegar lögregla blés til stóraðgerðar í íbúðarhúsi sem áður var leikskóli í þessu tæplega 200 manna samfélagi vegna meintrar framleiðslu fíkniefna í húsinu.
Reynir Þorsteinsson, eigandi Gunnubúðar, sem er um 20 metra frá húsinu, ræddi við mbl.is í gær og kvað hasarinn hafa verið mikinn þegar fimm lögreglubifreiðar renndu í hlað.
„Skrýtið frá upphafi“
Annar íbúi í bænum, sem ræddi nafnlaust við mbl.is í gærkvöldi, sagði húsið hafa verið selt fyrir þremur eða fjórum árum og þá kvisast út að þar ætlaði aldraður maður sér að verja ævikvöldinu einn og yfirgefinn.
„Þetta fór fljótlega að verða svolítið skrýtið,“ segir íbúinn, „fólk fór fljótlega að taka eftir því að það var alltaf bíll sem kom einu sinni í mánuði um nótt og var svo farinn eldsnemma morguns. Eftir þessu var tekið og þetta var eins og vaktaskipti,“ segir hún áður en hún segir frá erlendum mönnum sem vöndu komur sínar í verslun bæjarins.
„Þeir komu í búðina á svona tveggja vikna fresti og léku sig heimska. Þóttust ekki tala nokkurt tungumál og borguðu alltaf með peningum. Þetta var skrýtið frá upphafi,“ segir viðmælandi mbl.is.
Íbúar hafi farið að stinga saman nefjum og ræða „aldraða manninn“ sín á milli, svo sem vegna lyktar sem þeir fundu frá húsinu og könnuðust ekki við, en viðmælandi mbl.is telur að ekki sé vanþörf á að skoða hverju fleiri hús á Raufarhöfn leyni innan veggja sinna. Svo sem gamla pósthúsið.